fim 23.okt 2025 12:00 Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson |
|

UTAN VALLAR: Samanburður á fjárhagsstöðu Breiðabliks og KuPS
Í dag mætir Breiðablik finnska liðinu Kuopion Palloseura, betur þekktir sem KuPS, í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Þá er ekki annað úr vegi en að bera saman félögin utan vallar.
Greinin var einnig birt á utanvallar.is
Rekstrartekjur
Rekstrartekjur Breiðabliks voru 738,1 milljón króna á síðasta ári sem var 57,6% hærra en rekstrartekjur KuPS sem voru 468,3 milljónir króna.
Rekstrargjöld
Rekstrargjöld Breiðabliks voru tæpar 865 milljónir króna á síðasta ári eða rúmlega 54,3% hærra en rekstrargjöld KuPS sem voru 560,6 milljónir króna.
Laun
Set smá fyrirvara við upphæðina hjá Breiðabliki en það er vegna þess að laun og launatengd gjöld hjá Breiðabliki falla undir gjaldaliðinn þjálfun, leikmenn og yfirstjórn ásamt fleiri þáttum. Laun og launatengd gjöld Breiðabliks eru þá væntanlega lægri en 591,8 milljónir krónur. Laun KuPS námu hins vegar 344,3 milljónum króna á síðasta ári.
Afkoma
Bæði félögin voru rekin með tapi á síðasta ári en tapið var aðeins meira hjá Breiðabliki, 104 milljónir króna, en hjá KuPS, 92 milljónir króna.
Eignir
Eignir Breiðabliks námu 432,8 milljónum króna og voru 423,3% hærri en eignir KuPS sem námu 82,7 milljónum króna.
Handbært fé
Handbært fé Breiðabliks var 183,7 milljónir króna í árslok 2024 á meðan handbært fé KuPS var 28,2 milljónir króna.
Skuldir
Þá voru skuldir KuPS tæpir 1,4 milljarðar króna á síðasta ári eða rúmlega 585,9% hærri en skuldir Breiðabliks sem voru 200,5 milljónir króna.
Eigið fé
Eigið fé Breiðabliks var jákvætt um 232,3 milljónir króna en eigið fé KuPS var neikvætt um tæplega 1,3 milljarða króna.