Milan 2 - 2 Pisa
1-0 Rafael Leao ('7 )
1-1 Juan Cuadrado ('60 , víti)
1-2 M'Bala Nzola ('86 )
2-2 Zachary Athekame ('93)
1-0 Rafael Leao ('7 )
1-1 Juan Cuadrado ('60 , víti)
1-2 M'Bala Nzola ('86 )
2-2 Zachary Athekame ('93)
Topplið AC Milan tók á móti nýliðum Pisa í fyrsta leik helgarinnar í efstu deild ítalska boltans og tók Rafael Leao forystuna snemma leiks með skoti frá vinstri kantinum. Það virtist engin hætta vera á ferð þar til Leao skipti um gír og lét vaða með föstu og lágu skoti sem fór í gegnum þvögu í teignum og endaði í netinu.
Milan var sterkara liðið í fyrri hálfleik en skapaði ekki mikið af færum svo staðan var 1-0 í leikhlé.
Gestirnir frá Písa færðu sig ofar á völlinn í síðari hálfleik og fengu dæmda vítaspyrnu eftir að skottilraun liðsins fór í hendina á Koni De Winter innan vítateigs. Kólumbíska kempan Juan Cuadrado steig á vítapunktinn og skoraði örugglega.
Milan varð sterkara liðið á vellinum eftir jöfnunarmarkið og hóf leit sína að sigurmarki, en hún skilaði ekki árangri. Þess í stað refsaði M'Bala Nzola eftir furðulega skyndisókn á 86. mínútu.
Þarna héldu nýliðarnir að þeir væru komnir með sigurmarkið líkt og nýliðar Cremonese í byrjun tímabils, þegar þeir mættu á San Siro og unnu óvænt 1-2 en það er eina tap Milan á deildartímabilinu til þessa.
Í þetta skiptið gáfust heimamenn þó aldrei upp og tókst nýja leikmanninum Zachary Athekame að gera jöfnunarmark í uppbótartímanum. Boltinn barst til hans eftir hornspyrnu og lét hann vaða viðstöðulaust utan teigs. Boltinn fór í gegnum þvöguna og var Adrian Semper markvörður Pisa alltof lengi að bregðast við.
Gestirnir í liði Pisa vildu fá dæmda rangstöðu þar sem þrír leikmenn Milan stóðu í rangstöðu, en samkvæmt dómarateyminu höfðu þeir engin áhrif á leikinn. Semper sá boltann fara af stað.
Niðurstaðan því 2-2 jafntefli. Milan er á toppi ítölsku deildarinnar með 17 stig eftir 8 umferðir, tveimur stigum á undan Inter, Napoli og Roma sem geta reynt að hrifsa toppsætið til sín um helgina. Napoli og Inter eigast við í stórleik á morgun.
Nýliðar Pisa eru enn án sigurs og sitja í fallsæti, með 4 stig.
Þess má geta að Milan er að glíma við gífurleg meiðslavandræði þessa dagana, en Max Allegri þjálfari var aðeins með fimm útispilandi leikmenn á varamannabekknum í kvöld - þar af tvo unglinga sem hafa aldrei byrjað leik fyrir aðalliðið.
Athugasemdir


