„Við vissum að þær myndu liggja til baka, kannski ekki alveg svona mikið. Þær byrjuðu að tefja á fyrstu mínútu og voru ennþá að tefja þegar við vorum 2-0 yfir, þannig ég veit ekki hvað þær voru að reyna taka úr þessum leik,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir eftir 2-0 útisigur Íslands á Norður-Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar.
Lestu um leikinn: Norður-Írland 0 - 2 Ísland
„Frábært að vinna úti, við vorum mikið betri með boltann meirihluta leiksins. Við skoruðum tvö góð mörk úr föstum leikatriðum, þær lágu mjög neðarlega og gerðu okkur erfitt fyrir að skapa færi úr opnum leik, 2-0 bara frábært.“
Sveindís var nálægt því að skora en hún átti bæði skot í stöng og í slá.
„Það hefði mátt fara inn, en vonandi kemur það í næsta leik.“
Ísland einokaði boltann nánast allan leikinn, Sveindís var spurð hvort hún muni eftir álíka leik í treyju Íslands.
„Nei, eða það hefur allaveganna verið mjög langt síðan. Það er gott að vita að við getum líka verið 'posession' lið. Það er mjög gaman líka að spila svona leik, þar sem við erum með yfirhöndina allan tímann. Við þurfum að æfa okkur í þessu, vonandi koma fleiri svona leikir: það þýðir að við séum betra liðið.“






















