| fös 24.okt 2025 11:30 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Fimm bestu sóknarmenn Bestu: Sá eini sem fékk fullt hús
Fótbolti.net hefur sett saman nokkrar mismunandi dómnefndir til að velja fimm bestu leikmennina í mismunandi stöðum í Bestu deildinni. Núna er komið að síðasta listanum sem er fyrir bestu sóknarmenn deildarinnar.
Einstaklingarnir í dómnefndunum eru vel valdir einstaklingar sem eru annað hvort að spila eða hafa spilað þá stöðu sem þeir voru beðnir um að setja saman lista úr. Þeir voru einfaldlega beðnir um að velja þá sem þeim finnst bestir heilt yfir - ekkert endilega bara á þessu tímabili þó það skipti auðvitað máli í valinu.
Þetta er þriðja árið í röð sem við tökum saman þessa lista en í ár verða þeir fleiri þar sem við bætum við tveimur stöðum - bakverðir og kantmenn en síðustu tvö ár voru leikmenn í þessum stöðum innifaldir í lista fyrir varnarmenn og sóknarmenn.
Patrick meiddist illa í sumar en það hafði mikil áhrif á Valsliðið.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjá einnig:
5. Viktor Jónsson (ÍA) og Andri Rúnar Bjarnason (Stjarnan)
Í fimmta sætinu eru tveir sóknarmenn sem fengu jafnmörg atkvæði frá dómnefndinni, Viktor Jóns og Andri Rúnar.
Viktor fór virkilega hægt af stað í sumar en hefur verið mjög góður að undanförnu og átt stóran þátt í því að ÍA leikur áfram í Bestu deildinni næsta sumar. Hann var svo auðvitað magnaður á síðasta tímabili þar sem hann gerði 18 mörk í 27 leikjum.
Það voru líklega einhverjir búnir að afskrifa Andra Rúnar fyrir nokkrum árum en sá hefur verið góður með Stjörnunni í sumar og komið sér aftur inn í umræðuna um bestu sóknarmenn deildarinnar. Hann hefur stigið upp í fjarveru Emils Atlasonar, sem var nálægt því að komast inn á þennan lista. Andri Rúnar hefur í sumar skorað tólf mörk í 26 deildarleikjum.
4. Sigurður Bjartur Hallsson (FH)
Sigurður Bjartur hefur sprungið út í sumar og verið besti leikmaður FH sem kom sér í efri hlutann. Hann hefur átt marga mjög góða leiki og tekist að skora 13 mörk í 25 leikjum í Bestu deildinni í sumar, sem er býsna vel gert.
Siggi Hall, eins og hann er ávallt kallaður núna, gæti klárlega verið á leið út í atvinnumennsku eftir þetta tímabil en það verður örugglega erfitt fyrir FH að halda í hann. „Þegar ég kemst á þetta skrið var það að stórum hluta tengt sjálfstraustinu, en einnig viðhorfsbreyting af minni hálfu, ég hætti að gera svona mikið úr leikjunum, braut nánast alla rútínu sem ég var með á leikdögum. Mér fannst það hjálpa mikið," sagði Sigurður Bjartur við Fótbolta.net í sumar en hann er orðinn gífurlega góður í að klára færin sín.
3. Eiður Gauti Sæbjörnsson (KR)
Þá er það maður sem er að spila sitt annað tímabil í Bestu deildinni. Og líka annar leikmaður KR sem kemst á þessa lista þrátt fyrir að liðið sé á fallsvæðinu. Eiður Gauti hefur nefnilega átt frábært tímabil með KR og sýnt að hann er með betri sóknarmönnum deildarinnar. Sumir hafa jafnvel kallað eftir því að hann eigi að vera í landsliðinu, en það er kannski ekki alveg raunhæft þessa stundina.
Eiður Gauti hafði spilað með Ými í 3. og 4. deild lengst af á sínum ferli áður en hann tók stökkið í HK fyrir tímabilið í fyrra. Hann hafði raðað inn mörkum í neðri deildum en var með fókusinn á vinnu og skóla frekar en fótbolta. HK hafði oft reynt að fá hann yfir en svo tók hann sénsinn og hann sér örugglega ekki eftir því í dag. Er afar mikilvægur fyrir KR-liðið og þeir hafa saknað hans mikið þegar hann hefur ekki spilað.
2. Nikolaj Hansen (Víkingur R.)
Nikolaj var efstur á þessum lista þegar hann var tekinn saman 2023 en komst ekki inn á hann í fyrra sem var athyglisvert. Þessi danski Íslendingur hefur sýnt það í sumar að hann er enn með bestu sóknarmönnum deildarinnar þar sem hann hefur skorað tíu mörk í 25 leikjum með Víkingum. Hann gefur samt Víkingsliðinu líka miklu meira en mörk.
Hann var í sumar orðaður við KA en skrifaði undir nýjan samning í Víkinni þar sem honum líður best. Nikolaj bætti í sumar metið yfir flest mörk skoruð fyrir íslenskt félagslið í Evrópukeppni. Hann er líka markahæsti leikmaður Víkings í efstu deild frá upphafi, og er svo sannarlega goðsögn hjá félaginu.
1. Patrick Pedersen (Valur)
Eini leikmaðurinn á öllum þessum listum sem fékk fullt hús stiga er Patrick Pedersen sem hefði líklega bætt markametið í sumar ef hann hefði ekki meiðst í bikarúrslitaleiknum. Valur hefði mögulega líka orðið Íslandsmeistari ef hann hefði ekki meiðst í leiknum.
Patrick átti magnað sumar þar sem hann skoraði 21 mark í 23 leikjum í deild og bikar. Hann er svo öflugur markaskorari og skráði sig á spjöld sögunnar í íslenskum fótbolta er hann var markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar í ágúst. Hann hefur núna skorað 134 mörk í 208 leikjum í efstu deild á Íslandi og er klárlega einn besti leikmaður sem hefur spilað hér á landi.
Patrick Pedersen er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar karla! ??
— Besta deildin (@bestadeildin) August 5, 2025
Danski framherjinn hefur nú skorað 133 mörk fyrir Val og bætir þar með met Tryggva Guðmundssonar sem skoraði 131 mark í efstu deild karla!
Til hamingju Patrick! ???? #bestadeildin pic.twitter.com/2BZxrugEYz
Hlédrægi Daninn hefur tvisvar farið erlendis eftir að hann kom fyrst í Val en honum virðist líða langbest á Hlíðarenda, eins og hann sýndi í sumar. Hann mun eflaust koma sterkari til baka í meiðslin þessi besti sóknamaður íslenska boltans.
Athugasemdir










