Santos, Baleba, Wharton, Anderson, Gallagher og Stiller á lista Man Utd - Rashford vill ganga alfarið í raðir Barcelona
banner
   fös 24. október 2025 12:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Gunnar Orri skrifar undir langtímasamning við FCK - „Ekki áætlunin að þetta hætti hér"
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Unglingalandsliðsmaðurinn Gunnar Orri Olsen hefur skrifað undir langtímasamning við FC Kaupmannahöfn eftir að hafa staðið sig vel frá því hann kom til Kaupmannahafnar sumarið 2024.

Hann var keyptur til félagsins frá uppeldisfélaginu, Stjörnunni. Hann er fæddur árið 2008 og spilar með U19 ára liði félagsins.

„Samningsframlengingar eru alltaf afar ánægjulegar því þær eru sönnun frá báðum aðilum að þróun og frammistaða eru að fara í rétta átt," segir Morten Grahn sem er yfir þróunarmálum leikmanna hjá FCK.

„Gunnar hefur sýnt mikla hæfni til að taka umhverfi okkar og kröfur og nota það til að bæta hæfileika sína. Framlengingin við Gunnar er - rétt eins og við sáum með Viktor Daðason - góð sönnun þess að við hjá FCK höfum marga efnilega hæfileikaríka leikmenn og fleiri eru á leiðinni," bætti Grahn við.

Gunnar tjáði sig sjálfur um framlenginguna. Hann er hæstánægður með móttökurnar sem hann fékk og góða byrjun hjá FCK.

„Ég er mjög ánægður með byrjun mína hjá félaginu. Við erum með marga hæfileikaríka einstaklinga í kringum okkur sem leggja mikið á sig til að gera okkur betri. Ég hef eignast góða vini í liðinu og við hjálpumst að á hverjum degi."

„Ég er stoltur af því að geta þegar gert nýjan samning og það er auðvitað merki um að hlutirnir séu að fara í rétta átt. Það er ekki áætlunin að þetta hætti hér. Mig dreymir um að spila fyrsta aðaliðsleikinn á Parken, rétt eins og ég hef séð aðra samlanda mína gera á undan mér,"
segir Gunnar Orri.

Mikkel Köhler sem stýrir kaupstefnu FCK tjáði sig einnig um Gunnar.

„Í fyrsta lagi er þetta mikið hrós fyrir Gunna því hann hefur unnið virkilega hart að þessu og hann hefur tekið stór skref á tiltölulega stuttum tíma hjá félaginu okkar."

„Gunnar er sóknarsinnaður miðjumaður sem getur spilað nokkrar mismunandi stöður. Hann er með góðan hraða og getur keyrt með boltann yfir mjög langar vegalengdir og á sama tíma er hann með mörk og stoðsendingar í leik sínum. Þetta gerir hann að leikmanni sem getur ráðið úrslitum í leikjum og hann hefur einnig sýnt það í fyrsta tímabili sínu í Kaupmannahöfn."

„Nú bíður næsta tímabil þar sem hann mun færast lengra í átt að meistaradeildarfótbolta. Hann verður að verða stöðugri í frammistöðu sinni og tryggja að hann sé afgerandi í nokkrum köflum leikjanna - þá er hann líka leikmaður sem við munum skoða betur í félaginu okkar,"
segir Köhler.
Athugasemdir
banner