Þau Pétur Pétursson og Adda Baldursdóttir hafa síðustu daga verið orðuð við þjálfarastarfið hjá Breiðabliki en félagið er í leit að nýjum þjálfara fyrir kvennaliðið sem Nik Chamberlain mun halda til Svíþjóðar eftir Evrópuleikina í næsta mánuði. Nik er að taka við Íslendingaliðinu Kristianstad.
Pétur og Adda unnu saman hjá Val og unnu marga stóra titla, en voru látin fara eftir tímabilið 2024. Pétur var þjálfari Vals á árunum 2018-2024 og Adda kom inn í teymið tímabilið 2023. Fótbolti.net heyrði í þeim báðum í dag.
Pétur og Adda unnu saman hjá Val og unnu marga stóra titla, en voru látin fara eftir tímabilið 2024. Pétur var þjálfari Vals á árunum 2018-2024 og Adda kom inn í teymið tímabilið 2023. Fótbolti.net heyrði í þeim báðum í dag.
Fór loksins í frí með eiginkonunni
„Það hefur engin haft samband við mig," segir Pétur sem hafði ekki heyrt af slúðrinu.
En hefðir þú áhuga á því að koma aftur inn í fótboltaheiminn sem þjálfari?
„Ég var ekki með tímabilið 2025, en ég hef aldrei sagt að ég sé hættur í fótbolta. Eða jú einu sinni, ég tilkynnti 1995 að ég væri hættur í fótbolta og þú veist hvernig það endaði, þannig ég hef ekki sagt neitt um að hætta í fótbolta síðan. Ég hef alltaf litið þannig á það að ef einhver skemmtileg verkefni koma upp þá væri ég opinn fyrir því að skoða þau."
Hafa komið einhver símtöl frá því að þínar leiðir og Vals skildu?
„Það var eitt símtal á miðju tímabili um að aðstoða þjálfara sem var að byrja í sínu starfi en ég gat það ekki. Annars er maður bara dauður held ég," segir Pétur og hlær.
„Aðstæður voru eins og þær voru þegar ég fór frá Val. Ég hef ekkert tilkynnt að ég sé hættur í fótbolta."
„Ég hef nýtt tímann í að vera meira með fjölskyldunni, heimsótt börn og barnabörn, hitt þau meira en ég gerði á meðan ég var í boltanum. Við hjónin fórum líka loksins í frí, fyrsta skiptið sem við förum saman í frí síðan við giftumst fyrir 36 árum, þriggja mánaða frí. Það var kominn tími til að njóta lífsins með ástinni," segir Pétur.
Heyrði slúðursöguna í stúkunni
Adda hafði hins vegar heyrt af slúðrinu.
„Ég hef ekkert heyrt í meistaraflokksráðinu," segir Adda sem er í dag þjálfari í akademíu Breiðabliks.
„Ég fór á Breiðablik - FH og heyrði þá sögu að ég og Pétur værum að taka við þessu, en ég hef ekkert heyrt sjálf frá Breiðabliki," segir Adda.
Þeir Magnús Már Einarsson og Gunnar Borgþórsson voru einnig orðaðir við Breiðablik í stóra slúðurpakkanum sem birtur var í dag.
Athugasemdir




