Arne Slot fór víðan völl á fréttamannafundi fyrir leik Liverpool gegn Brentford sem fer fram í dag.
Englandsmeistarar Liverpool höfðu tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum áður en þeir heimsóttu Eintracht Frankfurt í miðri viku og rúlluðu yfir Þjóðverjana.
Florian Wirtz og Mohamed Salah hafa verið mikið gagnrýndir á upphafi tímabils og byrjaði Salah á bekknum í Frankfurt, en Wirtz var í byrjunarliðinu og lagði upp tvö mörk með stuttu millibili í síðari hálfleik. Þetta eru fyrstu mörkin sem hann leggur upp frá félagaskiptum sínum fyrir metfé síðasta sumar, að undanskildri stoðsendingu í leiknum um Samfélagsskjöldinn.
„Flo (rian Wirtz) átti frábæran leik og það er gott að hann náði inn stoðsendingum. Mér finnst fyndið að flokka aðra stoðsendinguna hans í dag sem stoðsendingu, en ekki undirbúninginn fyrir markið gegn United um síðustu helgi," sagði Slot, sem var einnig spurður út í meiðslavandræði liðsins
„Meiðslin hjá Alexander (Isak) líta ekki illa út, það er spurning hvort hann verði klár í slaginn um helgina eða í næstu viku. Við verðum að sjá til. Það er sama með Ryan Gravenberch, en Jeremie Frimpong er á slæmum stað. Hann er ekki að fara að spila á næstu dögum frekar en Alisson (Becker)."
Slot ræddi einnig um vinstri bakvörðinn Milos Kerkez sem hefur ekki þótt nægilega góður frá félagaskiptum sínum úr röðum Bournemouth síðasta sumar.
„Hann getur komið með mikla orku inn í leikinn, hann er óþreytandi á vinstri vængnum og það er ástæðan fyrir að við keyptum hann. Hann er óheppinn að Cody (Gakpo) elskar að fara inn á hægri fótinn, við erum búnir að sýna honum myndbönd af nokkrum skiptum þar sem hann hefði frekar átt að senda boltann út í breiddina á Milos (Kerkez) í staðinn fyrir að fara sjálfur inn völlinn með boltann."
Slot var sérstaklega spurður út í Salah sem sat lengst af á bekknum gegn Frankfurt og virtist ekki sérlega sáttur.
„Ég hef engar áhyggjur af Mo, hann hefur alltaf skorað mörk fyrir Liverpool. Þetta er það síðasta sem ég hef áhyggjur af, að hann hætti að gera eitthvað sem hann hefur gert allt sitt líf. Ég býst ekki við öðru en að hann byrji að skora aftur fyrir okkur. Hann er ennþá sami Mo á æfingum, hann klárar færin sín og það er enginn að fara að breyta því.
„Ef orðspor mitt væri undir og ég ætti að velja einn leikmann til þess að skora fyrir mig mark af 10 metra færi, þá myndi ég hiklaust velja Mo."
Athugasemdir





