Fótbolti.net í samstarfi við Livey fékk tækifæri ásamt blaðamönnum frá öðrum þjóðum til að ræða við Eric Garcia, varnarmann Barcelona, fyrir stórleikinn gegn Real Madrid sem fer fram á sunnudag.
The Athletic skrifaði nýverið grein um Garcia þar sem fjallað er um að hann hafi óvænt verið besti varnarmaður Barcelona á tímabilinu. Undir stjórn Hansi Flick er þessi 24 ára gamli varnarmaður í fyrsta sinn að láta ljós sitt skína eftir að hann kom aftur til uppeldisfélagsins frá Manchester City árið 2021.
The Athletic skrifaði nýverið grein um Garcia þar sem fjallað er um að hann hafi óvænt verið besti varnarmaður Barcelona á tímabilinu. Undir stjórn Hansi Flick er þessi 24 ára gamli varnarmaður í fyrsta sinn að láta ljós sitt skína eftir að hann kom aftur til uppeldisfélagsins frá Manchester City árið 2021.
Hann hefur oftar en einu sinni verið nálægt því að yfirgefa Barcelona eftir endurkomu sína til félagsins og var hann lánaður til Girona 2023-24 tímabilið. Hann er núna hins vegar í mikilvægu hlutverki í agressívu kerfi Flick.
Fréttamaður Fótbolta.net spurði Garcia einmitt út í það hvernig það væri að spila í kerfi Flick? Þýski stjórinn vill spila mjög sókngjarnan fótbolta og fer gífurlega hátt með varnarlínu sína.
„Við tökum stundum áhættur en mér finnst þetta hafa virkað mjög vel fyrir okkur," sagði Garcia við spurningu Fótbolta.net.
„Lið eru farin að þekkja inn á okkur og finna leiðir til að særa okkur, en ef við erum upp á okkar besta og sérstaklega með boltann þá munum við ekki fá á okkur mörg færi. Það er okkar aðalmarkmið núna."
Spilaði með syni Eiðs Smára
Garcia kom upp í gegnum La Masia skólann, hið fræga unglingastarf Barcelona. Þegar hann var að alast upp þá var Eiður Smári Guðjohnsen hluti af liði Barcelona. Hann var hluti af mögnuðu liði sem vann Meistaradeildina með Lionel Messi fremstan í flokki. Garcia spilaði í barna- og unglingaliðum Barcelona með Andra Lucasi Guðjohnsen, syni Eiðs Smára.
„Ég var auðvitað bara krakki en ég fékk tækifæri til að spila með syni hans þegar ég var í akademíunni. Ég þekki auðvitað til hans," sagði Garcia.
„Þetta var stórkostlegt lið, eitt besta Barcelona lið sögunnar. Það var mjög gaman að horfa á það."
Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá viðtalið við varnarmanninn öfluga þar sem hann ræðir meira um leikinn gegn Real Madrid.
Leikur Barcelona og Real Madrid verður í beinni útsendingu á Livey klukkan 15:15 á sunnudaginn.
Athugasemdir






















