Arne Slot, stjóri Englandsmeistara Liverpool, hefur látið nokkur sérstök ummæli falla um andstæðinga liðsins á síðustu dögum, en fyrrum leikmaður félagsins segir að sumt eigi bara heima í búningsklefanum.
Síðustu daga hefur Slot farið mikinn í viðtölum og blaðamannafundum.
Hann talaði um leikstíl Manchester United í 2-1 tapinu á Anfield og gagnrýndi lágvörn lærisveina Ruben Amorim og þá ræddi hann um taktík þýska liðins Eintracht Frankfurt í miðri viku.
Stjórinn sagði boltann hafa verið mikið í loftinu og það hafi því reynst erfitt fyrir liðið að pressa mótherjann. Einnig talaði hann um að hann hafi heyrt það að Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, hafi hjálpað þjálfarateymi Frankfurt í undirbúningnum fyrir leikinn gegn Englandsmeisturunum.
Glen Johnson, sem lék með Liverpool til margra ára, talaði við AceOdds um ummæli Slot, en hann segir þau ekki eiga heima í fjölmiðlum.
„Hvert einasta lið hefur eigin leikstíl og þú spilar bara með það sem þú er með í höndunum. Allir vilja spila fótbolta eða það sem við köllum tiki-taka, sem er auðvitað frábær leið til að spila fótbolta, en ef löngu boltarnir eru veikleiki þá mun fólk sjá og reyna að nýta sér það. Leikurinn breytist mjög hratt og öll lið eru með eigin hugmyndir um hvernig sé best að leggja upp leiki.“
„Fólk þarf að gera það sem það getur til þess að ná forskoti á andstæðinginn og ef það telur best að henda löngum boltum og sækja á vissa leikmenn í vissum svæðum þá munu liðin gera það.“
„Vanalega koma stjórarnir fram og verja sína leikmenn, en á sama tíma munu þeir einnig reyna að fá sem best viðbrögð frá leikmönnunum. Þannig ef stjórinn þarf að benda fingrum af og til þá er það bara í fínasta lagi.“
„Auðvitað þarftu samt að halda hópnum ánægðum og að gagnrýnin sé uppbyggjandi frekar heldur en að skera þig frá hópnum. Ég er samt viss um að hann er að gera það sem hann telur rétt, en ég tala af reynslu þegar ég segi að þessir slagir eigi frekar heima í búningsklefanum,“ sagði Johnson.
Athugasemdir



