
Íslenska kvennalandsliðið mætir því norður írska í fyrri leik liðanna í umspili Þjóðadeildarinnar annað kvöld. Leikið verður á Ballymena Showgrounds vellinum rétt utan Belfast í Norður Írlandi.
Fótbolti.net ræddi við Þorstein Halldórsson þjálfara liðsins eftir síðustu æfingu Íslands fyrir leikinn.
„Ég býst við mjög aggresívum leik frá þeim. Þær eru beinskeyttar, grimmar og spila mikið í lágri blokk og eru skipulagðar. Við þurfum að vera þolinmóð þeirri nálgun sem við mætum í þennan leik. Þetta er náttúrulega bara fyrri leikurinn, en úrslitin skipta að sjálfsögðu miklu máli.“
„Við vitum að við þurfum að vera á tánum og þurfum að spila góðan leik til að vinna þær. Ég hef fulla trú að við munum eiga góðan leik hér á morgun, það er planið okkar og það sem við stefnum að. Við mætum á morgun til að spila til sigurs.“
Allir leikmenn klárir í bátana?
„Það eru allir leikmenn klárir, sem er gott. Það er sú staða sem þú vilt hafa daginn fyrir leik þannig það er gott að við vitum að við getum stillt upp liðinu sem við ætluðum okkur að stilla upp.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.