Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports, segir Manchester United í verri málum í dag en þegar Erik ten Hag var við stjórn, en þetta sagði hann í hlaðvarpsþætti sínum á dögunum.
Ten Hag var rekinn snemma á tímabilinu þrátt fyrir að hafa unnið tvo titla á tveimur árum sínum hjá félaginu.
Hollendingurinn var oft harðlega gagnrýndur fyrir leikaðferðir sínar og voru úrslitin ekki að skila sér. Allir töldu að hlutirnir myndu breytast þegar Ruben Amorim kom frá Sporting, en Neville segir stöðuna verri í dag.
„Ég hélt að þetta yrði betra þegar Ruben Amorim kom inn og að áhuginn og nýja kerfið kæmi með. Ég hélt líka að leikmennirnir myndu kaupa hugmyndina og við myndum sjá eitthvað hopp í frammistöðu. Við höfum hins vegar fengið að sjá andstæðuna af því. Þetta hefur versnað til muna og það kemur mér á óvart.“
„Sársaukinn verður töluvert meiri fyrir lok tímabils og það mun valda miklum skaða. Þeir ætla að halda sig við Ruben Amorim, en þeim oftar sem þú tapar því erfiðara er að sannfæra leikmennina um hugmyndafræðina. Hugmyndin sem hann talaði um þegar hann var ný kominn. Þú þarft að fá leikmennina til að kaupa hugmyndina, en ef þeir tapa, þá halda þeir áfram að vera gagnrýndir, sviðsljósið færist á þá og stuðningsmennirnir yfirgefa völlinn óánægðir.“
„Þeir geta ekki haldið áfram að tapa. Hugur leikmanna verður þungur og það mun koma að þeim tímapunkti þar sem þeir missa alla trú á hugmyndafræðinni. Þetta mun skemma fyrir liðinu fyrir byrjun næsta tímabils. Hann verður að gera eitthvað, en hann getur ekki breytt nálgun sinni því fyrr myndi hann dauður liggja, sem er alveg hárrétt metið hjá honum. Ég held samt að hann hafi tapað fleiri leikjum hjá Manchester United en hann gerði í síðustu 75 leikjum hans með Sporting,“ sagði Neville.
Síðan Amorim tók við hefur United tapað átta leikjum í öllum keppnum. Hann hefur sjálfur viðurkennt að þetta gæti verið versta lið í 147 ára sögu Manchester United.
Liðið hefur gert vel í Evrópudeildinni og er þegar komið í 16-liða úrslit en það hefur ekki náð sama árangri í úrvalsdeildinni. United er í 13. sæti, fjórtán stigum frá Meistaradeildarsæti þegar fjórtán umferðir eru eftir.
Athugasemdir