Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 05. maí 2022 23:52
Ívan Guðjón Baldursson
Van Bronckhorst: Ekki hægt að skrifa betra handrit
Mynd: EPA

Giovanni van Bronckhorst, þjálfari Rangers, svaraði spurningum eftir sögulegan sigur gegn RB Leipzig í undanúrslitum Evrópudeildarinnar fyrr í kvöld.


Rangers vann 3-1 á heimavelli og samanlagt 3-2 eftir að hafa tapað fyrri leik liðanna í Þýskalandi. James Tavernier fyrirliði skoraði og kom einnig í viðtal að leikslokum ásamt John Lundstram sem gerði sigurmarkið.

„Þetta er stórkostlegt kvöld, leikmennirnir voru frábærir og það væri ekki hægt að skrifa betra handrit heldur en þetta. Við skáluðum fyrir Jimmy (Bell) og erum ótrúlega stoltir. Ég bjóst ekki við þessu þegar ég tók við félaginu í desember, ég er mjög stoltur af þessu afreki," sagði Van Bronckhorst.

„Það eru ekki margir leikmenn sem höndla að spila úrslitaleik í Evrópukeppni. Þetta er ekki fyrir alla. Við þurfum að leggja allt í sölurnar til að vinna úrslitaleikinn, alveg eins og við gerðum í kvöld."

Lundstram, fyrrum leikmaður Sheffield United, gerði sigurmarkið á 81. mínútu og tileinkaði það Jimmy Bell. Bell var treyjumaðurinn hjá Rangers en lést á dögunum.

„Þetta er ólýsanleg tilfinning, við erum komnir í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Vá. Þetta er besta kvöldið mitt frá upphafi, það var magnað að spila í ensku úrvalsdeildinni en það er ekki jafn gott og að komast í úrslitaleik í Evrópukeppni.

„Orð geta ekki lýst hversu mikli máli Jimmy (Bell) skipti fyrir okkur. Hann var mjög mikilvægur fyrir liðsheildina. Ég vil tileinka honum þetta mark sem ég skoraði í kvöld, ég elska hann í tætlur."

Að lokum var komið að markaglaða bakverðinum Tavernier sem hefur átt magnað tímabil með Rangers og er algjör lykilmaður hjá félaginu.

„Við vildum gera þetta fyrir Jimmy. Hann horfir á okkur stoltur niður frá himnum. Þetta er ótrúlegt afrek, þetta er það sem okkur dreymir um. Við munum mæta fullir sjálfstrausts í úrslitaleikinn. Við erum hérna til að sigra."






Athugasemdir
banner
banner
banner