fös 05. ágúst 2022 17:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Myndband: Besti leikur Samúels í langan, langan tíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samúel Kári Friðjónsson, leikmaður Viking í Noregi, átti sannkallaðan stórleik í gær þegar norska liðið vann 5-1 sigur á írska liðinu Sligo Rovers í fyrri leik liðanna í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Samúel skoraði annað mark liðsins, átti risastóran þátt í þriðja markinu og lagði svo upp það fjórða. Eftir leik var hann valinn maður leiksins af Aftonbladet í Noregi. Í leiknum leysti hann þrjár stöður. Hann byrjaði hægra megin á miðjunni, færði sig yfir vinstra megin og endaði svo í hægri bakverðinum. Hann fékk átta í einkunn frá norska miðlinum.

Eftir leik var eftirfarandi skrifað um frammistöðu Samúels:

„Var ískaldur í 2-0 markinu, glæsilega gert. Gerði virkilega vel að komast í þessa stöðu og valdi réttan kost. Hefur verið að spila betur síðustu vikur. Gerði frábærlega vel í 4-0 markinu. Hans besti leikur fyrir Viking í langan, langan tíma. Óstöðvandi."

Samúel er 26 ára gamall Keflvíkingur sem gekk í raðir Viking frá Paderborn árið 2020. Hann á að baki átta A-landsleiki og var hann síðast í landsliðshópnum í Þjóðadeildinni í september 2020.

Hann er liðsfélagi Patriks Sigurðar Gunnarssonar hjá Viking sem hefur varið mark norska liðsins í flestum leikjum á þessu tímabili. Hér að neðan má sjá það helsta úr sigri Viking í gær.


Athugasemdir
banner
banner
banner