Man Utd og Chelsea leiða baráttuna um 63 milljóna punda Gyökeres - United hefur áhuga á Gortezka og Sane - Samningi Neymar gæti verið rift
banner
   mán 06. janúar 2014 11:00
Elvar Geir Magnússon
Sölvi Ottesen: Einkabílstjóri skutlar mér á æfingar
Sölvi í baráttunni í rússnesku deildinni.
Sölvi í baráttunni í rússnesku deildinni.
Mynd: Getty Images
Á æfingu með íslenska landsliðinu.
Á æfingu með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmaðurinn Sölvi Geir Ottesen er lykilmaður hjá FC Ural í rússnesku úrvalsdeildinni. Liðið er í harðri fallbaráttu en deildin er í vetrarfríi þar til í mars.

Sölvi er í áhugaverðu viðtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Sjá einnig:
Fær 20 sprautur vikulega

Sölvi segir að stuðið sé oft mikið á pöllunum í rússnesku deildinni, þarna sé mikil stemning þó margt annað sé í ólagi. Það vissi hann svo sem fyrir en hann er lítið að velta því fyrir sér. Hann vill bara spila fótbolta og gera það vel.

„Ég vissi að völlurinn hjá Ural væri fínn og það var alveg nóg. Það skiptir mig litlu máli hvort búningsklefinn er úr sandi og sturturnar með litlum krafti. Ég þarf ekkert meira en gras og bolta. Æfingasvæðið okkar er fínt, búningsklefarnir eru...Já, bara eiginlega ekkert sérstakir en ég meina: aðstæður til að spila fótbolta eru frábærar, maður þarf ekkert meira,“ segir Sölvi

„Ég er með íbúð í miðbænum frá klúbbnum sem er voða fínt. Þegar það kom í ljós að ég mætti ekki keyra þarna úti setti ég þá kröfu að ég fengi íbúð í miðbænum. Þeir treysta ekki hverjum sem er til að keyra þarna þannig ég er með einkabílstjóra sem skutlar mér á æfingar og til baka. Ég labba bara í miðbæinn og þarf svo sem ekkert bíl.“

„Vegakerfið þarna úti er skelfilegt. Ég hef aldrei séð annað eins. Ekki einu sinni í bíómyndum. Ég keyri eina 15-20 kílómetra á æfingasvæðið og maður er stundum klukkutíma að komast. Umferðarreglurnar eru hálf-skrýtnar. Þetta er eiginlega allt einstefna þannig að það þarf að vera mjög vakandi yfir því hvert maður á að beygja. Ætli sé ekki einfaldast að segja að Rússar séu mjög ákveðnir í umferðinni.“

Sölvi segist ætla að koma fyrr heim til Íslands en hann hafði gert ráð fyrir.

„Það er bara vegna þess að fjölskyldan er komin til Íslands og ég ætla ekkert að vera frá henni í tvö til þrjú ár. Það er fínt að koma til Íslands og geta eitthvað í fótboltanum ennþá,“ segir Sölvi Ottesen.

Lesa má viðtalið í heild við Sölva í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.
Athugasemdir
banner
banner