Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 06. janúar 2021 20:28
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arsenal-konur ósáttar við liðsfélaga sem ferðuðust til Dúbaí
Arsenal er eitt af sterkustu liðum Englands.
Arsenal er eitt af sterkustu liðum Englands.
Mynd: Getty Images
Frá Dúbaí.
Frá Dúbaí.
Mynd: Getty Images
Dúbaí ferðir leikmanna í úrvalsdeild kvenna á Englandi í kringum hátíðarnar eru að valda nokkru fjaðrafoki þessa stundina.

Leikmenn í úrvalsdeild kvenna fóru í jólafrí og völdu margar að ferðast frá Englandi og til Dúbaí.

Þrjár af leikmönnum Arsenal, sem er eitt besta lið deildarinnar, eru sagðar hafa farið til Dúbaí frá London eftir að viðbúnaðarstig í ensku höfuðborginni var sett á fjórða stig vegna kórónuveirufaraldursins í desember.

Reglur voru hertar og mátti ekki ferðast frá London nema hafa sérstaka ástæðu til þess. Fólk er hvatt til að halda sig heima. Einn af leikmönnum Arsenal sem ferðaðist til Dúbaí er sögð hafa greinst með veiruna og nokkrir leikmenn liðsins eru núna í sóttkví vegna þess.

Arsenal á að mæta Aston Villa á laugardag og samkvæmt Telegraph hefur félagið beðið um að fresta þeim leik. Ian Wright, sem er goðsögn hjá Arsenal, segir það ekki rétt af félaginu að gera það.

„Við erum að biðja um frestun því við brutum reglurnar? Af hverju á að refsa Villa fyrir það? Spilið leikinn," skrifaði Wright á Twitter.

Arsenal er búið að rannsaka ferðalög leikmanna og niðurstaða rannsóknarinnar var að leikmennirnir hefðu ferðast í viðskiptalegum tilgangi og þess vegna haft ástæðu til þess. Samkvæmt Telegraph þá eru margir leikmenn Arsenal ósáttir við þær sem ferðuðust til Dúbaí eftir að viðbúnaðarstig var hækkað.

Fram hefur komið að Katie McCabe, fyrirliði Írlands, hafi verið ein þeirra sem hafi farið til Dúbaí en hún birti mynd af sér þar á Instagram. Það var ekki hún sem greindist með veiruna að því er kemur fram á The Sun. McCabe segist hafa farið til Dúbaí að hitta umboðsmann sinn.

Dúbaí var greinilega vinsæll áfangastaður hjá leikmönnum í úrvalsdeild kvenna á Englandi um hátíðarnar því fjórir leikmenn Manchester City greindust með veiruna eftir að hafa farið til Dúbaí. Það ber þó að taka fram að þær máttu ferðast. The Sun segir jafnframt að fleiri fótboltakonur til viðbótar hafi farið til Dúbaí.

Man City hefur beðið um frestun á næsta leik sínum gegn West Ham út af smitum í hópnum.

Ástandið í Bretlandi hefur alls ekki verið gott að undanförnu og mikil aukning hefur verið í kórónuveirusmitum. Nýtt afbrigði veirunnar ömrulegu hefur greinst í landinu og þykir það mjög smitandi.


Athugasemdir
banner
banner
banner