Pochettino á radar Man Utd og Bayern - McKenna orðaður við Chelsea - Slot við Kökcu til Liverpool
banner
   mán 06. febrúar 2023 23:30
Ívan Guðjón Baldursson
Leao líkaði við tíst gegn Stefano Pioli
Mynd: skjáskot

Rafael Leao var besti leikmaður ítölsku deildarinnar er AC Milan varð Ítalíumeistari á síðustu leiktíð.


Leao skoraði 11 mörk og gaf 10 stoðsendingar í 34 leikjum á síðustu leiktíð og er einnig að standa sig gífurlega vel á yfirstandandi tímabili.

Hann fær þó ekki alltaf sæti í byrjunarliðinu og virðist ekki sérlega sáttur með það, sérstaklega í ljósi þess að nokkur af stærstu félögum Evrópu hafa áhuga á að festa kaup á honum.

Leao var ekki í byrjunarliði Milan sem tapaði nágrannaslagnum gegn Inter um helgina eða í liðinu sem steinlá óvænt gegn Sassuolo á heimavelli. Gegn Sassuolo var Leao skipt inn í hálfleik og gegn Inter kom hann inn af bekknum á 54. mínútu.

Þetta hefur ekki farið vel í stuðningsmenn Milan og ekki Leao heldur ef Twitter er skoðað. Þar líkar Leao við færslu frá SempreMilan aðganginum, sem er með yfir 100 þúsund fylgjendur.

Færslan er einfaldlega þumalputti niður við ummæli Stefano Pioli, þjálfara Milan, eftir tapið gegn Inter í fjandslagnum.

Þar var Pioli spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að geyma Rafael Leao á bekknum í 54 mínútur. Þjálfarinn svaraði að ákvörðunin hafi verið taktísk og hann myndi taka hana aftur ef leikurinn yrði endurspilaður.

Það er algjört forgangsmál hjá stjórnendum Milan að gera nýjan samning við Leao. Portúgalski kantmaðurinn er 23 ára gamall og aðeins með eitt og hálft ár eftir af samningnum við félagið.

Leao er kominn með 8 mörk og 5 stoðsendingar í 20 leikjum í Serie A á tímabilinu.


Athugasemdir
banner
banner