Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 06. apríl 2021 20:19
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Áslaug Munda gerir nýjan samning við Breiðablik
Áslaug Munda á fleygiferð.
Áslaug Munda á fleygiferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Breiðablik. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kópavogsfélaginu.

Áslaug Munda er uppalin á Egilsstöðum en steig sín fyrstu skref með meistaraflokki Völsungs á Húsavík. Hún gekk í raðir Breiðabliks fyrir tímabilið 2018.

Hún verður tvítug á árinu en er engu að síður að hefja sitt fjórða tímabil með Blikum og á að baki 79 leiki með liðinu þar sem hún hefur skorað 12 mörk.

Á ferli sínum í Kópavoginum hefur Áslaug Munda hjálpað Breiðablik að vinna tvo Íslandsmeistaratitla og einn bikarmeistaratitil ásamt því að komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu árið 2019.

Hún hefur sannað sig sem ein allra efnilegasta knattspyrnukona landsins, var fastamaður í yngri landsliðum og spilaði svo sína fyrstu A-landsleiki sumarið 2019. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli erlendra félagsliða og meðal annars farið á reynslu til franska stórliðsins PSG.

Áslaug hefur spilað í vinstri bakverði fyrir Breiðablik en getur einnig leikið hærra upp á vellinum. Hún spilaði lítið síðasta sumar vegna meiðsla en nær vonandi að spila meira í sumar.

„Áslaug Munda er mikil fyrirmynd jafnt innan sem utan vallar. Það eru sannarlega gleðitíðindi að hún hafi framlengt samning sinn við félagið og það verður gaman að fylgjast með henni halda áfram að leika listir sínar á vellinum með sinn mikla hraða og áræðni," segja Blikar.
Athugasemdir
banner
banner
banner