lau 06. ágúst 2022 11:20
Aksentije Milisic
Freysi og Sævar hrósuðu Elíasi - „Einn besti markvörður deildarinnar"
Lyngby náði ótrúlegu jafntefli í gær.
Lyngby náði ótrúlegu jafntefli í gær.
Mynd: Getty Images

Lyngby náði ótrúlegu jafntefli gegn Midtjylland í gær en liðið var 3-0 undir í fyrri hálfleik áður en það náði að minnka muninn í 1-3 rétt fyrir hálfleik.


Það var síðan Sævar Atli Magnússon sem tryggði Lyngby stig með jöfnunarmarki seint í leiknum en þetta var hans fyrsta mark í dönsku úrvalsdeildinni.

Þrátt fyrir þessa endurkomu þá sagði Freyr Alexandersson, þjálfari Lyngby, að liðið sitt hefði átt að vinna þennan leik.

„Fyrstu 30 mínúturnar voru okkar verstu á þessari leiktíð. Seinni hálfleikurinn er hins vegar það besta sem við höfum sýnt. Við áttum skilið að vinna þennan leik og við ýttum þeim langt niður á völlinn," sagði Freysi.

Sævar Atli kom inn á og fiskaði vítaspyrnu sem kom muninum niður í 2-3. Hann jafnaði svo metin undir lok leiks.

„Það hefði verið frábært að fá öll þrjú stigin, við vorum með miklu meiri orku heldur en Midtjylland. Það var frábært að skora þetta mark, ég hitti knöttinn fullkomlega," sagði Sævar.

Sævar og Freysi hrósuðu báðir Elíasi Rafni Ólafssyni, markverði gestanna, en hann varði frábærlega í restina sem bjargaði stiginu fyrir gestina.

„Ég sá boltann inni, en Elías er hávaxinn strákur og með langa fingur. Ég var tilbúinn að hlaupa inn á og fagna sigrinum,"  sagði Freysi.

„Elías er einn besti markvörður deildarinnar. Ég held að það myndu ekki margir markmenn í deildinni verja þetta sem hann varði í restina," sagði Sævar um Elías.


Athugasemdir
banner
banner