Njósnarar Arsenal fylgjast með Yildiz og Chelsea gerði tilboð sem Juventus hafnaði - Reguilon er í viðræðum við Inter Miami
   mán 06. október 2025 17:52
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Kári: Náðum vopnum okkar eftir fíaskóið í Kaupmannahöfn
Kári gat brosað í gær.
Kári gat brosað í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Strákarnir, leikmennirnir, áttu gott spjall sín á milli. Þetta er þéttur hópur, mikið af leiðtogum, og það var gríðarleg samheldni sem þeir sýndu í kjölfarið'
'Strákarnir, leikmennirnir, áttu gott spjall sín á milli. Þetta er þéttur hópur, mikið af leiðtogum, og það var gríðarleg samheldni sem þeir sýndu í kjölfarið'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslandsmeistaratitilinn var tryggður í gær.
Íslandsmeistaratitilinn var tryggður í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Þá setjum við loksins í fluggírinn, fimmta gír, og töpum ekki leik eftir það. Frá þeim tímapunkti sínum við hversu 'dominant' lið við erum'
'Þá setjum við loksins í fluggírinn, fimmta gír, og töpum ekki leik eftir það. Frá þeim tímapunkti sínum við hversu 'dominant' lið við erum'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingar pökkuðu Bröndby saman í Víkinni en töpuðu svo í Kaupmannahöfn.
Víkingar pökkuðu Bröndby saman í Víkinni en töpuðu svo í Kaupmannahöfn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er alltaf smá stress, annars væri þetta ekkert skemmtilegt. Það væri engin ástríða ef það myndi ekki fylgja því smá stress, en ég hafði alltaf trú á að við myndum vinna þennan leik. Það getur samt allt gerst í fótbolta," segir Kári Árnason sem fagnaði Íslandsmeistaratitli í gær.

Kári er yfirmaður fótboltamál hjá Víkingi, hefur verið í því starfi frá 2021 og var þetta annar Íslandsmeistaratitill félagsins frá því að hann fór í það starf.

„Það var æðislegt að fagna þessu, þetta er búið að vera svolítið upp og niður tímabil, beygjur og hringtorg eins og menn segja, en fyrir okkur á skrifstofunni er allavega mikill léttir að klára þetta - þurfa ekki að vinna Breiðablik eða Val eftir stutt frí. Það er rosa þægilegt núna, en engu að síður ætlum við okkur að vinna Breiðablik og Val, lítum ekkert á að þetta sé bara búið, það eru bara leikir sem við ætlum að klára og fara í gegnum úrslitakeppnina með fullt hús stiga. Það er planið."

Þú talar um beygjur og hringtorg, var einhver tímapunktur í sumar þar sem þú hugsaðir að þetta kæmi kannski ekki í ár?

„Við vorum alltaf inni í mótinu, vorum lengi vel á toppi deildarinnar, en þetta var kannski ekkert endilega rosalega sannfærandi. Þó svo að tölfræðin væri með okkur í liði og samkvæmt því værum við að skapa flest færi, þá var ég ekkert endilega alltaf ánægður með leik liðsins. En mér fannst gríðarlegur stígandi, sérstaklega eftir fíaskóið í Kaupmannahöfn, þá fannst mér strákarnir ná vopnum sínum og þá fórum við að sjá alvöru frammistöðu í 90 mínútur. Við sáum glefsur fram að því, frábæra hálfleiki hér og þar, mikið af nýjum leikmönnum og kannski eðlilegt að frammistaðan var ekki alltaf góð í 90 mínútur."

„Svo gleymast líka meiðslin sem við vorum að eiga við, þau voru gríðarleg. Aron Elís (Þrándarson) spilar einn leik, fyrsta leikinn, Pablo (Punyed) er lítið sem ekkert með, við erum með nýja miðju og Matti (Matthías Vilhjálmsson) mikið meiddur. Við missum líka Gunnar (Vatnhamar) í fimm leiki, á hryllilegum tímapunkti. Það var erfitt, en eftir Bröndby leikinn úti þá var þetta gott."

„Við áttum bestu Evrópuframmistöðu í sögu íslenskra félagsliða á heimavelli á móti Bröndby, held ég megi alveg segja það óhræddur. Þetta var hreint út sagt ótrúlegur leikur. Við höfum átt marga góða leiki á heimavelli, gegn Lech Poznan og Malmö - mjög góðum liðum. En Bröndby sá ekki til sólar, áttu ekki séns og hefðu átt að tapa stærra fyrir okkur."

„Fyrri hálfleikurinn í Kaupmannahöfn var frábær, ekkert athugavert við hann, en svo hrynur liðið í seinni hálfleik. Við náum að koma til baka sem sýnir styrk liðsins og hópsins sem við höfum myndað - og þjálfarateymisins. Þá setjum við loksins í fluggírinn, fimmta gír, og töpum ekki leik eftir það. Frá þeim tímapunkti sínum við hversu 'dominant' lið við erum."


Kári nefnir fíaskóið í Kaupmannahöfn. Víkingur leiddi 3-0 eftir fyrri leikinn í 3. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni, stórkostlegur sigur á Víkingsvelli. Bröndby fékk svo rautt spjald í fyrri hálfleik seinni leiksins og allt leit vel út, Víkingur fékk á sig ódýrt mark í lok fyrri hálfleiks og svo önnur þrjú í seinni hálfleik og féll úr leik.

Ræddu menn eitthvað eftir það hvað þeir hefðu viljað gera öðruvísi í kringum og í þessum seinni leik?

„Við fórum yfir þetta allt, öllum steinum velt, fórum yfir allt ferlið, hvað við gætum gert betur. Strákarnir, leikmennirnir, áttu gott spjall sín á milli. Þetta er þéttur hópur, mikið af leiðtogum, og það var gríðarleg samheldni sem þeir sýndu í kjölfarið."

Kári var spurður út í framhaldið, hvað tekur við?

„Maður verður að leyfa sér að njóta, en þetta hættir aldrei. Þetta er hringekja sem heldur áfram að fara í hringi. Maður er löngu byrjaður að plana næsta tímabili, sjá fyrir sér leikmannahræringar og annað. Ég er mættur á skrifstofuna, þetta heldur bara áfram," segir Kári.

Fleiri bútar úr viðtalinu við Kára má nálgast hér við fréttina. Kári ræddi þar sérstaklega um þjálfarann, Gylfa Þór Sigurðsson og Valdimar Þór Ingimundarson.
Athugasemdir
banner
banner
banner