þri 07. janúar 2020 10:14
Magnús Már Einarsson
Steinþór Freyr, Þorri og Angantýr framlengja við KA
Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Steinþór Freyr Þorsteinsson.
Mynd: Hulda Margrét
Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við KA en þetta kemur fram á heimasíðu félagisns.

„Þetta eru miklar gleðifregnir enda er Steinþór öflugur leikmaður og flottur karakter sem hefur komið sterkur inn í félagið," segir á heimasíðu KA.

Hinn 34 ára gamli Steinþór lauk nýverið sínu þriðja tímabili með KA eftir að hafa komið frá Sandnes Ulf í Noregi. Steinþór sem er 34 ára hefur leikið 43 leiki fyrir KA í deild og bikar og hefur í þeim gert eitt mark. Þá hefur hann verið öflugur í leikjum KA í Kjarnafæðismótinu og hefur gert tvö mörk í mótinu til þessa.

Steinþór ólst upp hjá Breiðabliki en hann lék síðan með Stjörnunni áður en hann fór út í atvinnumennsku til Noregs.

„Það er afar jákvætt skref að halda Steinþóri innan okkar raða en auk þess að vera öflugur leikmaður er hann flott fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu ungu leikmenn okkar og mun halda áfram að miðla sinni miklu reynslu til þeirra," segir á heimasíðu KA.

Þorri Már Þórisson framlengdi samning sinn við KA á dögunum til ársins 2022. Þorri spilaði fjóra leiki með KA í deild og bikar á nýliðnu sumri áður en hann var lánaður til Keflavíkur sem lék í Inkasso deildinni.

Með Keflavík lék hann 12 leiki og gerði í þeim tvö mörk. Hann kom til liðs við KA frá Dalvík/Reyni þar sem hann hjálpaði liðinu að tryggja sig upp um deild sumarið 2018. Þar áður var hann á mála hjá Hannover 96 í Þýskalandi.

Angantýr Máni Gautason framlengdi í vikunni samning sinn við KA út sumarið 2022. Angangýr var á láni hjá Magna í Inkasso-deildinni í fyrra þar sem hann spilaði fimmtán leiki.
Athugasemdir
banner