Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
banner
   þri 07. febrúar 2023 14:32
Elvar Geir Magnússon
Varnarmaður RB Leipzig í stofnfrumugjöf og gæti misst af leik
Willi Orban.
Willi Orban.
Mynd: Getty Images
Willi Orban, ungverski varnarmaðurinn hjá RB Leipzig í Þýskalandi, er að fara í stofnfrumugjöf á morgun og vonast til að bjarga mannslífi.

Hann fékk skilaboð um að hann væri í sama vefjaflokki og einstaklingur sem er með hvítbæði.

Blóð verður tekið úr Orban á morgun en hann fór í sprautur til að fjölga stofnfrumum í blóði hans.

„Það kom mér á óvart þegar ég fékk upplýsingar um að ég gæti verið stofnfrumugjafi einhvers einstaklings. Ég vildi klárlega gefa eins fljótt og mögulegt er. Ég hef möguleika á því að bjarga lífi einhvers án mikillar fyrirhafnar," segir Orban.

Orban, sem hefur spilað hverja einustu mínútu í deildinni á þessu tímabili, hefur ekki æft með liðinu síðan á sunnudag og óvíst hvort hann verði með gegn Union Berlín á laugardaginn.

„Lífið sjálft er mikilvægara en fótbolti. Þetta var mjög auðveld ákvörðun. Ég gæti misst af þessum leik en allir sem þekkja mig vita að ég geri allt til að snúa aftur sem fyrst. Ég vona að þetta sé hvatning fyrir fleira fólk að skrá sig (sem stofnrumugjafi). Ferlið var mjög einfalt," segir Orban.

Hér má finna upplýsingar um það hvernig þú getur gerst stofnfrumugjafi á Íslandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner