Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 07. apríl 2021 14:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ekki bara litið framhjá Viðari - Er ennþá kergja?
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Icelandair
Mynd: Getty Images
Arnar var ekki sammála Mikael í nóvember
Arnar var ekki sammála Mikael í nóvember
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar og Eiður
Arnar og Eiður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór
Willum Þór
Mynd: Getty Images
Sveinn Aron
Sveinn Aron
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons spilaði gegn Þýslakalandi en ekkert gegn Armeníu og Liechtenstein
Alfons spilaði gegn Þýslakalandi en ekkert gegn Armeníu og Liechtenstein
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann
Ísak Bergmann
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingu í Ungverjalandi
Á æfingu í Ungverjalandi
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Það var mikið rætt um af hverju Viðar Örn Kjartansson, leikmaður Vålerenga, var ekki í íslenska landsliðshópnum í síðasta landsleikjaglugga. Einnig var einhver umræða um þá Guðmund Þórarinsson, leikmann New York City FC, og Emil Hallfreðsson, leikmann Padova. Emil hefur verið í hópnum á undanförnum árum en Guðmundur ekki spilað alvöru landsleik á sínum ferli.

Þá var rætt um hvort ætti að velja Alfons Sampsted, Arnór Sigurðsson og Jón Dag Þorsteinsson í A-landsliðið eða í U21 landsliðið sem tók þátt í lokakeppni Evrópumótsins.

Arnór var áfram í A-landsliðinu og kom það ekki á óvart, hefur verið að fá mínútur þar og leysir ákveðið hlutverk. Alfons tók skrefið upp í A-landsliðið en Jón Dagur var fyrirliði U21 árs liðsins. Jón Dagur átti að baki sex A-landsleiki fyrir síðasta verkefni og var kallaður inn í hópinn fyrir leikinn gegn Liechtenstein, Arnór átti ellefu leiki að baki og Alfons tvo vináttuleiki. Þeir Jón Dagur og Alfons eru fæddir 1998 og Arnór 1999.

Loks vakti það athygli fréttaritara þegar fjórir leikmenn úr U21 árs landsliðinu voru kallaðir upp í A-landsliðið fyrir leikinn gegn Liechtenstein. U21 landsliðið þurfti að vinna Frakkland í lokaleik mótsins til að eiga séns á að fara áfram. Vinna þurfti með þriggja eða fjögurra marka mun. Það var sárt að sjá gæða leikmenn kallaða upp í A-landsliðið þegar það var enn veik von og nóg um það.

Leikmennirnir sem kallaðir voru upp voru þeir Ísak Bergmann Jóhannesson (18 ára, 1 A-landsleikur), Jón Dagur Þorsteinsson, Sveinn Aron Guðjohnsen (1998, 0 leikir) og Willum Þór Willumsson (1998, 1 leikur).

Sjá einnig:
Arnar Viðars: Eru framtíðarleikmenn íslenska landsliðsins

Þetta kall frá A-landsliðinu kom mér á óvart sem áhorfanda á mótið í Ungverjalandi. Jón Dagur var búinn að vera flottur á mótinu og með reynslu úr A-landsliðinu og Ísak ein af vonarstjörnunum. Kannski skrítið að kalla Ísak upp eftir að hann var ekki í byrjunarliðinu gegn Dönum en annars eðlilegt að mínu mati.

Það var alveg ljóst, og allir sem komu að valinu, vissu að það yrði umræða um Svein Aron. Hann var persónulega búinn að koma mér á óvart á mótinu í Ungverjalandi. Kröftugri og duglegri en ég hafði búist við. Augljóst var samt að hann var ekki í 90 mínútna leikformi þar sem hann hefur lítið spilað með OB í vetur. Mér fannst hann alveg verðskulda kallið frá A-landsliðinu, hann hafði verið einn af betri leikmönnum U21 árs liðsins, einn af þeim sem sást að var vesen fyrir hin liðin að eiga við. Það er held ég alveg óþarfi fyrir mig að fara að setja hann upp á móti Viðari Erni, sú umræða hefur verið tekin og burtséð frá þeim samanburði fannst mér áhugavert að sjá hvernig Svenni kæmi út í A-landsliðinu.

Það var gaman að sjá hann fá tækifærið í byrjunarliðinu gegn Liechtenstein en eðlilega var það umdeilt. Sem betur fer vannst sá leikur og þarf í raun bara að velta því fyrir sér hvort eðlilegast hefði verið að byrja með Hólmbert Aron Friðjónsson og fá Svein Aron inn, ef það átti að horfa á einhverja goggunarröð.

Að næsta leikmanni, Willum. Hann var látinn sitja upp í stúku eftir að hafa æft með liðinu á þriðjudag og leikdag. Fínt fyrir hann að kynnast umhverfinu og allt það en á sama tíma hefði hann líka haft gott af því að spila gegn frábæru liði Frakklands. Þetta var eitthvað sem þurfti að vega og meta. Skrítið að hann hafai verið sá sem endaði utan hóps en á leikdegi varð ljóst að einn yrði í því hlutverki.

Willum var fínn, ekkert meira, í leikjunum gegn Rússlandi og Dönum. Sóknarlega og með boltann var hann flottur gegn Rússlandi og skárri varnarlega gegn Danmörku. Mín upplifun úr stúkunni var sú að það var auðsjáanlegt að það vantar hraða í leik Willums og ef það stafar ekki af leikformi þá er augljóst fyrir mér að hann þarf að bæta sig taktískt, vera betur staðsettur varnarlega til að það sé hreinlega ekki hlaupið framhjá honum. Með boltann sýndi hann hvers hann er megnugur og augljóslega klár leikmaður, eitthvað sem A-landsliðinu vantar bæði núna og í framtíðinni. Svo það sé skýrt tekið fram þá er Willum gæða leikmaður, annars væri hann ekki í stærsta liði Hvíta-Rússlands, BATE.

Það kom mér strax á óvart þegar ég vaknaði á mánudagsmorgni að sjá nöfn fjögurra leikmanna sem væru á leið til Sviss. Og nafn Mikaels Neville Anderson var ekki eitt þeirra. Leikmaður sem er taktískt klár, leikmaður sem er góður með boltann á sprettinum, leikmaður sem lætur finna fyrir sér og ofan á allt spilar í besta liði Danmerkur. Það lítur út fyrir að það sé eitthvað ekki í lagi á milli Mikaels og Arnars Þórs Viðarssonar (mögulega Eiðs Smára líka, Guðjohnsen hefur minna verið í því að tjá sig um leikmenn).

Uppákoman í nóvember, þegar Mikael spilaði fyrir Midtjylland í stað þess að leika með U21 landsliðinu, hefur verið rædd og sagði Arnar Þór það opinberlega að hann hafi verið ósammála því vali hjá leikmanninum. Upp á stöðu Mikaels að gera hjá Midtjylland hefur það komið skýrt í ljós að hann valdi rétt, og U21 liðið fór í lokakeppnina, allir ættu að vera sáttir, er það ekki? Mikael spilaði í Meistaradeildinni í vetur, eini Íslendingurinn sem gerði það á þessu tímabili, þar á meðal gegn stórliði Liverpool.

Það kom mér ekki á óvart þegar ég sá A-landsliðshópinn fyrir verkefnið í mars að sjá ekki Mikael Neville í þeim hópi. Mig grunaði að það væri ennþá einhver kergja. Ég var í hreinskilni ánægður að sjá að Mikael væri í U21 hópnum því ég var að fara fylgjast náið með því móti og fjalla um það.

Ég veit ekki hvort þetta sé einhver samsæris þráhyggja hjá mér að velta þessu upp en mér fannst það stórkostlega undarlegt þegar Mikael var ekki í byrjunarliðinu í fyrsta leik á móti Rússum og finnst það enn í dag. Mikael kom inn á í þeim leik og spilaði hina tvo leikina - var meðal bestu leikmanna Íslands eins og blessaðir pappírarnir gerðu ráð fyrir.

Mér fannst það svo aftur jafn undarlegt að Mikael hafi ekki verið kallaður inn í A-landsliðið á mánudeginum eftir leik tvö. Það eru tvö atriði sem ég ætla vekja athygli á í tengslum við það. Ég spurði Davíð Snorra Jónasson út í það í viðtali daginn eftir tíðindin. Svo vöktu svör Arnars Þórs, þegar hann var spurður út í Alfons Samspted, einnig athygli.

Úr viðtalinu við Davíð:
Finnst þér þetta vera fjórir bestu leikmenn liðsins (sem voru kallaðir upp í A-landsliðið)? „Ég ætla ekki að vera kommenta á það, þetta eru leikmenn sem eru búnir að spila mikið og eru búnir að standa sig hrikalega vel, eins og margir aðrir."

Veistu þú af hverju Mikael Neville Anderson er ekki einn af þessum fjórum? „Arnar [Þór Viðarsson] velur liðið og stundum er maður valinn og stundum ekki. Ég held að svarið sé ekki flóknara en það."

Úr svörum Arnars um Alfons:
Hefði verið betra fyrir Alfons að fara í U21 landsliðið í þessum glugga?

„Alfons var kominn of langt. Hann spilaði alla leiki í Noregi í fyrra og varð meistari. Hann og Birkir Már eru okkar tveir hægri bakverðir. Það var aldrei möguleiki að skilja Alfons eftir."

Alfons spilaði alla leiki og varð meistari. Það er hárrétt hjá Arnari. Alfons spilaði líka stórleiki í Evrópudeildinni og alveg hægt að sjá að hann og Birkir séu okkar bestu hægri bakverði. Auðvitað eiga bestu leikmennirnir að vera í A-landsliðinu, á stærsta sviðinu og það þarf meira en einn hægri bakvörð í landsliðshóp.

En hvað með Mikael, er hann ekki kominn jafn langt? Jú, það er alveg hægt að benda á það að hann er á pappírunum kannski ekki okkar besti eða næstbesti miðjumaður. En hann hefur líka spilað á kanti eða sem tía. Það er kostur að geta spilað fleiri en eina stöðu framarlega á vellinum, okkur vantar skapandi leikmenn í A-landsliðið. Hann var meistari með FC Midtjylland, spilaði í Meistaradeildinni og er í deild sem er í gangi. Mikael er að spila leiki á meðan sumir leikmenn í íslenska A-landsliðinu hafa spilað örfáar mínútur á þessu ári.

Mikael (1998) á að baki sjö A-landsleiki, alla nema einn undir stjórn Erik Hamrén. Hann er að spila í góðri deild og getur spilað sömu stöðu og Willum. Mikael er í dag, að mínu mati, betri leikmaður og sást það í Ungverjalandi.

Það eru því nokkrar spurningar sem ég spyr mig að.

Hver eru rökin fyrir því að Mikael var ekki kallaður upp í hópinn? Er ennþá stirt á milli leikmanns og þjálfara? Er hann erfiður í hóp? Gæti það verið eitthvað annað sem þjálfurunum líkar ekki við? Verður Mikael skoðaður með A-landsliðinu í júní?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner