AS Roma og Lazio áttust við í erkifjendaslag í Serie A deildinni á Ítalíu í gær en mikið var undir fyrir bæði lið.
Rómverjar voru heilt yfir betri í leiknum og tókst liðinu að knýja fram 1-0 sigur þar sem varnarmaðurinn öflugi Gianluca Mancini stangaði boltann í netið af krafti eftir hornspyrnu frá Paulo Dybala. Myndband af markinu má sjá neðst í fréttinni.
Roma fékk betri færi til að bæta við öðru markinu en inn vildi boltinn ekki og þá fór Lazio að pressa mikið undir lokinn. Lazio náði að koma boltanum í netið í eitt skiptið en réttilega var dæmd rangstaða.
Það var gífurlega mikill hiti á vellinum og var þar Matteo Guendouzi, leikmaður Lazio, allt í öllu. Hann tók Dybala á m.a. hálstaki en Argentínumaðurinn svaraði honum með því að sýna á sér legghlífina þar sem er mynd af Dybala haldandi á heimsmeistaratitlinum. Argentína vann einmitt Frakkland í úrslitaleiknum þar sem Guendouzi var í leikmannahópi Frakka.
Guendouzi kýldi einnig Leandro Paredes í magann eftir leikinn og þá mætti Daniele De Rossi, þjálfari Roma, og lét nokkur vel valin orð í eyra kappanns. Þetta var fyrsti grannaslagur De Rossi sem þjálfara liðsins og uppskar hann sigur sem var mjög þýðingamikill fyrir hann eins og sjá mátti eftir að lokaflautið gall.
Eftir leik ákvað hetja Roma, Mancini, að fagna með stuðningsmönnum liðsins með því að sveifla stórum móðgandi fána fyrir Lazio. Þar var búið að setja mynd af rottu á fána liðsins. Mancini baðst afsökunar á þessu í viðtali eftir leikinn en hann gæti fengið eins leiks bann fyrir þetta athæfi.
„Hjartað mitt er á fullu, ég er glaðasti maður í heiminum. Ég vil eiga þessa treyju að eilífu. Það bað stuðningsmaður mig um treyjuna en ég gat ekki gefið honum hana, ég verð að eiga hana. Ég gaf honum stuttbuxurnar mínar," sagði Mancini.
Fyrir neðan eru fleiri myndir úr þessum hatramma borgarslag en ljóst er að Rómverjar eru með montréttinn næstu daga og mánuði.
There was a heated battle between Dybala and Guendouzi during the Derby della Capitale…
— Italian Football TV (@IFTVofficial) April 7, 2024
Paulo showed the Frenchman his shin guard that has a picture of him lifting the World Cup against France ???? pic.twitter.com/BhSwASkzd6