Eyjakonan Sigríður Lára Garðarsdóttir var að vonum svekkt eftir 3-0 tap gegn Breiðablik í kvöld. Henni fannst upplag Eyjaliðsins ganga þokkalega upp en að liðið hafi fengið á sig ódýr mörk sem gerðu ÍBV erfitt fyrir.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 0 ÍBV
„Mér fannst gameplanið okkar ganga en við gleymdum að dekka og þær skora einfaldlega."
„Það var eins og við hefðum gefist upp en ég held að við höfum rifið okkur aðeins upp í seinni hálfleik og reynt að gera eitthvað en það gekk ekki í dag,” sagði Sigríður Lára sem viðurkenndi að það væri erfið staða að lenda tveimur mörkum undir svona snemma leiks gegn liði eins og Breiðablik.
„Þetta er eitt af sterkustu liðunum. Þær eru með mjög vel spilandi lið en mér fannst við allavegana koma aðeins sterkari í seinni hálfleik og vorum að pressa þær en við náðum ekki að skapa nein alvöru færi.”
Tveimur mörkum undir og með korter eftir á klukkunni tóku þjálfarar ÍBV áhættu og fjölguðu í sókninni. Sú áhætta gekk þó ekki upp og það voru Blikar sem skoruðu þriðja mark leiksins gegn fáliðaðri vörn gestanna.
„Þær skora eitt þarna í lokin en þá erum við með allan mannskapinn uppi.”
ÍBV siglir nokkuð lygnan sjó um miðjan deild en liðið hefur ekki náð að nýta sín tækifæri á að klifa ofar í töflunni og nú virðist stefna í að 5. sætið verði niðurstaðan. Sigríður Lára er þó bjartsýn á að liðið geti gert betur en í fyrra og náð 4. sæti.
„Markmiðið okkar er að gera betur en í fyrra þannig að við stefnum að því áfram og tökum einn leik fyrir í einu og klárum mótið með stæl,” sagði Sigríður Lára að lokum.
Athugasemdir