Víkingur vann sinn annan leik í Sambandsdeildinni fyrr í dag er liðið sigraði Borac Banja Luka frá Bosníu á Kópavogsvelli. Leikar enduðu 2-0 fyrir Víkingum sem eru nú komnir með sex stig í Sambandsdeildinni. Gísli Gottskálk Þórðarson, miðjumaður Víkings mætti í viðtal eftir leik.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 FK Borac
„Stór sigur, sex stig. Það er örugglega meira en flestir hefðu vonað, þar að segja aðrir en við. Mér leið vel inn á vellinum allan tímann. Mér fannst við vera með yfirhöndina allan tímann, þetta var nokkuð þægilegur sigur."
„Ég held að einn sigur eða eitt jafntefli í viðbót gæti tryggt okkur í umspilið. Við stefnum á að taka næstu leiki, það er hundrað prósent. Ég var búinn að heyra að sjö stig gætu dugað. Við ættum samt að stefna á níu stig. Taka alla heimaleikina, miðað við hvað við erum að spila vel."
Sambandsdeildin er stór gluggi fyrir leikmenn Víkings.
„Þetta er risastór gluggi fyrir alla, það er pressa að standa sig. Maður reynir að standa sig í öllum leikjum. En þetta er stór keppni og maður er meðvitaður um það."
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir