Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 08. júlí 2021 10:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Virkilega góð innkoma Ara - „Vonandi fæ ég að spila næsta leik"
Úr leik með U21 árs landsliðinu
Úr leik með U21 árs landsliðinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það var frábært að fá að spila og að byrja leik. Ég var áður búinn að koma inn á í einhverjar tólf mínútur gegn Bodö/Glimt í stöðunni 5-0 svo maður græddi ekkert mikið á því," sagði Ari Leifsson leikmaður Strömsgodset við Fótbolta.net í gær.

Ari var maður leiksins þegar Strömsgodset og Vålerenga gerðu 1-1 jafntefli á sunnudag og í kjölfarið var Ari valinn í lið vikunnar. Það var hans fyrsti leikur í byrjunarliði á tímabilinu og annar leikurinn sem hann tekur þátt í. Ari er á sínu öðru tímabili hjá liðinu en hann kom frá Fylki í fyrra.

Sjá einnig:
Ari greip tækifærið og spilaði frábærlega - Í liði vikunnar

„Fyrst og fremst var geggjað að byrja leik og það var ennþá meiri plús að það fór vel. Ég ætlaði fyrst og fremst að taka þessar níutíu mínútur og vinna út frá því. Svo vonandi fær maður að spila fleiri leiki."

Varstu persónulegu sáttur með þína eigin frammistöðu?

„Jú, ég var mjög sáttur með þetta. Auðvitað vill maður alltaf meira, það er alltaf eitthvað sem maður getur gert betur en þannig séð geng ég sáttur frá borði með þennan leik. Ég reyndi að gera allt sem ég gat til að hjálpa liðinu eins og maður gerir alltaf, maður er alltaf að reyna sitt besta."

Fyrir leikinn, var þetta svokallaður 50:50 leikur eða voru þeir líklegra liðið?

„Þeir voru á pappírunum sterkara liðið og unnu okkur í báðum leikjunum í fyrra. Þetta var erfiður leikur og góður andstæðingur."

Var 1-1 sanngjörn niðurstaða?

„Mér fannst við eiga skilið að sigla þessu heim, næla í þrjú stig á heimavelli þar sem við höfum verið sterkir. Maður virðir stigið en maður er alltaf til í þrjú, alltaf."

Hvað var það sem gekk svona vel hjá þér í leiknum?

„Það gekk mjög vel í návígunum í leiknum hjá mér. Þetta var hraður leikur, fram og til baka og ég stóð mig vel í návígunum."

Hvernig er staðan þín hjá félaginu?

„Þjálfarinn hefur hingað til haldið sig við hina tvo miðverðina. Það er þannig með þessa stöðu að þú gerir ekkert rosalega oft breytingar, það er oftar þannig með kantmenn, meira skipt inn og út. Þetta er svolítið eins og að vera markmaður, þannig séð. Þjálfarinn ákvað að spila þeim í fyrstu leikjunum og það er bara samkeppni í öllum stöðum."

Þetta snýst þá væntanlega um að nýta tækifæri eins og þetta og sýna sig á æfingum eða hvað?

„Já, akkúrat. Það er það eina sem ég get gert þannig séð, að reyna grípa tækifærið eins vel og ég get. Útkoman verður svo bara eins og hún verður og vonandi fæ ég að spila næsta leik," sagði Ari að lokum.

Ari fékk tækifæri í byrjunarliðinu þar sem miðvörðurinn Niklas Gunnarsson tók út leikbann. Strömsgodset er í 12. sæti deildarinnar, með tólf stig eftir tíu leiki spilaða. Vålerenga er í 3. sæti deildarinnar.

Næsti leikur Strömsgodset er gegn Viking á laugardaginn.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner