Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 08. júlí 2021 10:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Evrópukvöld í Garðabænum er sérstök upplifun"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brynjar Gauti
Brynjar Gauti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslensku liðin þrjú, FH, Stjarnan og Breiðablik, hefja leik í Sambandsdeildinni í dag. FH og Stjarnan leika fyrri leikinn í 1. umferð forkeppninnar á heimavelli gegn írskum liðum en Breiðablik spilar í Lúxemborg í dag.

Í þessari grein verður einblínt á leik Stjörnunnar og írska liðsins Bohemians sem fram fer á Samsungvellinum í kvöld og hefst sá leikur klukkan 19:45.

Fótbolti.net heyrði í Brynjari Gauta Guðjónssyni, leikmanni Stjörnunnar, í gær og spurð hann út leikinn í kvöld.

„Þetta er spennandi verkefni. Við tókum eitt ár í pásu frá Evrópukeppni og það er alltaf gríðarlega skemmtilegt að taka þátt í þessum Evrópukeppnum," sagði Brynjar Gauti.

Hvað vitiði um þetta írska lið?

„Við spiluðum við írskt lið fyrir nokkrum árum (Shamrock Rovers) og þeir spila old school breskan fótbolta. Stór og sterkur framherji, fljótir og flinkir kantmenn, lið sem spilar af miklum krafti og ákefð. Þetta eru svona pínu tuddar og við teljum okkur vita nokkurn veginn hvað við erum að fara út í."

„Þetta er í fjórða skiptið sem ég mun mæta írsku liði, ég spilaði tvisvar gegn írskum liðum með ÍBV og kannast við hvernig þeir vilja spila fótbolta."


Hvernig metiði möguleikana gegn þessu liði?

„Þetta er bara 'fifty-fifty' einvígi held ég. Þetta er lið sem er á svipuðu leveli og við þannig þetta verður gríðarlega erfiður leikur. Við teljum okkur eiga að geta komist áfram og ætlum okkur að gera það."

Nálgist þið leik í Evrópukeppni á öðruvísi hátt en hefðbundinn deildarleik?

„Þetta er aðeins öðruvísi, aðeins meira umstang í kringum leikina. Þetta er lið sem maður þekkir ekki beint eins og íslensku liðin, maður veit út í hvað maður er að fara þegar maður mætir þeim liðum sem maður spilar margoft við. Það er kafað dýpra hvernig liðið er og hvernig leikmennirnir sem maður er að fara mæta eru."

Þið eruð með öðruvísi Evróputreyjur, er það aukastemning í kringum þetta?

„Já, það hefur alltaf verið frá því ég kom í Stjörnuna, svona sér Evróputreyja. Það gefur þetta smá auka krydd. Þetta eru flottir búningar og engin breyting þar á núna, ég er mjög hrifinn af þessari treyju sem við verðum í núna."

Fyrri leikurinn á heimavelli, breytir það einhverju?

„Eftir að útivallarmörkin voru tekin í burtu þá breytist dýnamíkin aðeins í þessu. Maður mætir með kassann úti á okkar heimavelli og við reynum að ná tökum á einvíginu á okkar velli. Það er smá munur fyrir þá að seinni leikurinn fer ekki fram á þeirra heimavelli heldur á þjóðarleikvangi Íra."

Hversu mikill lykill verður stuðnngur úr stúkunni?

„Það er gríðarlega mikilvægt að fá okkar geggjuðu stuðningsmenn til að standa við bakið á okkur. Evrópukvöld í Garðabænum er sérstök upplifun og hefur verið extra góð stemning á þeim. Ég vona að það verði engin breyting á því og að þau í stúkunni verði öll í miklum gír," sagði Brynjar Gauti.

Leikurinn í kvöld verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner