banner
   mið 08. september 2021 22:52
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Er 25 ára, ekki 18 ára, þegar kemur að leikskilning
Icelandair
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Ísak Bergmann Jóhannesson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórir Jóhann í leiknum.
Þórir Jóhann í leiknum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Bergmann Jóhannesson átti líklega sinn besta A-landsleik þegar Ísland tapaði 4-0 gegn Þýskalandi í undankeppni HM í kvöld.

Ísak er aðeins 18 ára gamall en hann fékk nokkuð stórt hlutverk í þessum landsleikjaglugga. Hvernig horfði frammistaða hans við Arnari Þór Viðarssyni, landsliðsþjálfara?

„Ísak er yngsti leikmaðurinn í hópnum og er einn af okkar efnilegustu leikmönnum ásamt nokkrum öðrum. Ef við tölum um ungu leikmennina, þá er Ísak kominn lengst á veg hvað varðar spiltíma og leiki hjá sínu félagsliði. Hann er kominn með ákveðna reynslu af því að spila í sænsku deildinni og er núna að fara í dönsku deildina," sagði Arnar.

„Þessir ungu leikmenn eru ekki komnir á þann stað að við getum sagt að þeir séu geggjaðir A-landsliðsmenn, en þeir verða að fá þessa leiki til að geta tekið skrefið. Ísak hefur ótrúlegan leikskilning og að því leytinu til er hann ekki 18 ára, hann er 25 ára. Það vantar kraft og það vantar oft þetta síðasta. En hann er einn af okkar efnilegustu leikmönnum og er kominn mjög langt miðað við aldur."

„Ég er mjög ánægður með hann, þó það hafi ekki allt gengið upp hjá honum. Ég veit hvert ég vil ná honum - ekki bara honum, hinum líka. Þeir verða að hafa reyndari leikmenn í kringum sig til að geta tekið skrefið."

Ánægður með Þóri Jóhann
Annar ungur leikmaður sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu í dag var Þórir Jóhann Helgason, tvítugur miðjumaður Lecce á Ítalíu. Hann spilaði á vinstri kanti og var mikill kraftur í honum.

„Þórir spilaði á vinstri kanti hjá okkur á móti Mexíkó í Dallas í júní. Hann er að taka skref mjög hratt. Hann var að fara út í atvinnumennsku en er búinn að byrja leiki fyrir Lecce. Hann er svona nútímamiðjumaður. Mér fannst leikurinn hans frábær. Þegar hann fékk boltann í fyrri hálfleik fannst mér hann líka frábær á boltanum. Hann var að vinna varnarvinnuna sem ég bað hann um að gera mjög vel," sagði Arnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner