Arsenal, Chelsea og Man Utd hafa áhuga á Vlahovic - Liverpool reynir að halda stjörnunum - City gæti krækt í Zubimendi
   fös 08. nóvember 2024 13:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skipulagsfulltrúinn sem íslenska landsliðið þarf á að halda?
Icelandair
Kári Árnason, fyrrum landsliðsmaður Íslands.
Kári Árnason, fyrrum landsliðsmaður Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson.
Aron Einar Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason, fyrrum miðvörður íslenska landsliðsins, vonar að Aron Einar Gunnarsson muni spila sem hafsent í komandi landsleikjaglugga.

Aron Einar, sem var fyrirliði Íslands til margra ára, er kominn aftur í hópinn eftir smá fjarveru og tekur þátt í komandi verkefni.

„Ég ætla að vona að hann verði hafsent. Auðvitað þarftu leiðtoga liðsins en þú þarft líka skipulagsfulltrúa sem er að skipuleggja varnarleikinn, segja mönnum til og hrauna yfir þá þegar það á við. Aron kemur svo sannarlega með það að borðinu. Ég vona svo sannarlega að hann verði notaður sem hafsent í þessu verkefni," sagði Kári í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem var birtur í hlaðvarpsformi núna áðan.

„Ef að menn eru nógu góðir þá skiptir engu máli hvað þeir eru gamlir. Ef að hann er á annarri löppinni en vörnin er betri, þá er hann bara þarna þangað til hann er fertugur. Þú verður samt alltaf að horfa á það hvað kemur næst."

Þarf að taka varnarleikinn í gegn
Vörnin hefur ekki verið góð í síðustu gluggum og Kári hefur verið lítt hrifinn af því sem hann hefur séð. Hann vonar að Aron geti hjálpað til við að skipuleggja vörnina.

„Liðsvarnarleikurinn, hann er ekki góður. Þeir eru mjög duglegir þessi strákar, margir hverjir. Jón Dagur hleypur úr sér lungun og Hákon (Arnar Haraldsson) er æðislegur leikmaður, vinnusemi og gæði. Það á að byggja liðið í kringum hann. Orri (Steinn Óskarsson) er að sýna sig og sanna. Svo ertu með vinnudýr með honum í Andra (Lucasi Guðjohnsen) sem er algjör lykilbreyta í þessu því hann tekur svo mikið til sín. Það er ferskur andblær að sjá tvo sentera saman frammi."

„Við erum með gríðarlega spennandi leikmenn og en það sem þarf að gerast er að taka þennan varnarleik í gegn. Það þarf að skipuleggja pressuna og lágvörnina betur. Varnarlínan er ekki að hjálpa, hún gerir mikið af mistökum. Það er enginn í línunni sem skipuleggur þetta og stjórnar þessu," segir Kári.

Kári segir að hann og Ragnar Sigurðsson hafi talað mikið um varnarleikinn utan æfinga þegar þeir voru saman í hjarta varnarinnar. Það hafi hjálpað þeim inn á vellinum.

„Það er búið að rótera ekkert eðlilega mikið með þessa línu núna og Sverrir er mikið meiddur. Það hefur kannski ekki myndast mikið svigrúm til þess að gera þetta. Það er rosa erfitt að segja við einhverja: 'Jæja, nú setjist þið tveir niður inn í herbergi og ræðið hvernig þið viljið hafa þetta'. Þetta kom miklu náttúrulega og svo endaði þetta á því að við sáum fótbolta á sama hátt," sagði Kári jafnframt.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Kári Árna, Evrópuvelgengni Víkings og landsliðið
Athugasemdir
banner
banner