Ítalska stórveldið Inter hefur mikinn áhuga á Christopher Nkunku sóknarleikmanni Chelsea.
Búist er við að Nkunku yfirgefi Chelsea í sumar en enska stórveldið vill fá 65 milljónir punda fyrir leikmanninn, sem er einnig eftirsóttur af FC Bayern og fleiri félögum. Arsenal og PSG eru meðal félagsliða sem hafa verið nefnd til sögunnar.
Nkunku er 27 ára gamall og þarf Inter fyrst að selja Mehdi Taremi til að kaupa leikmanninn, sem kom að 19 mörkum í 42 leikjum með Chelsea á tímabilinu. Hann kom oftast inn af bekknum og vill yfirgefa félagið til að fá meiri spiltíma.
Besiktas, Fenerbahce, Fulham og Nottingham Forest eru öll sögð áhugasöm um Taremi, sem er 32 ára gamall en er falur fyrir svo lítið sem 4 milljónir punda.
Nkunku hefur verið að fá mikilvægara hlutverk hjá Chelsea í síðustu leikjum þar sem hann var í byrjunarliðinu bæði í 8-liða úrslitum og undanúrslitum á HM félagsliða.
Nkunku er með fjögur ár eftir af samningi sínum við Chelsea en hann lék fyrir PSG og RB Leipzig áður en hann flutti til Englands fyrir tveimur árum.
Hann hefur skorað eitt mark í fjórtán landsleikjum með Frakklandi.
Athugasemdir