Félagaskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano greinir frá því að miðjumaðurinn efnilegi James McAtee sé falur fyrir 25 milljónir punda í sumar.
McAtee er aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við Manchester City og vill ekki skrifa undir hjá félaginu án þess að fá loforð um aukinn spiltíma. Man City ætlar því að selja leikmanninn í sumar.
Það eru mörg félög áhugasöm um að tryggja sér krafta McAtee, en hann vann EM U21 árs landsliða sem fyrirliði Englands fyrr í sumar.
McAtee verður 23 ára gamall í október og hefur komið við sögu í 48 úrvalsdeildarleikjum á ferli sínum. Hann tók þátt í 27 leikjum með Man City á síðustu leiktíð og skoraði 7 mörk.
Það er gríðarlega mikill áhugi á McAtee sem er sóknarsinnaður miðjumaður að upplagi en getur einnig leikið úti á hægri kanti. Félög frá Þýskalandi og Ítalíu eru áhugasöm, auk félaga úr ensku úrvalsdeildinni á borð við Crystal Palace og Nottingham Forest.
Sky Sports er ekki sammála Romano í þetta skiptið. Fréttaveitan segir að Man City vilji fá 40 milljónir punda fyrir McAtee.
McAtee á í heildina 32 leiki að baki fyrir yngri landslið Englands.
Athugasemdir