Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   sun 09. ágúst 2020 15:57
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Rúnar Kristins um að mæta Celtic: Ágætis lausn
Ætla að reyna að gefa skosku meisturunum alvöru samkeppni
Íslandsmeistararnir mæta Celtic í Skotlandi.
Íslandsmeistararnir mæta Celtic í Skotlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Síðast þegar Celtic og KR áttust við. Það var árið 2014.
Síðast þegar Celtic og KR áttust við. Það var árið 2014.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
„Mér líst bara ljómandi vel á það," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, um það að mæta skosku meisturunum í Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Það voru erfiðir andstæðingar í pottinum og ég held að þetta hafi verið ágætis lausn; stutt ferðalag og lið sem auðvelt er að fylgjast með. Við vitum samt að það verður mjög erfitt að komast áfram, en það var alltaf að fara að vera þannig," segir þjálfari Íslansmeistarana í samtali við Fótbolta.net.

KR var í neðri styrkleikaflokki og drátturinn var alltaf að fara að verða erfiður eins og Rúnar bendir á.

Venjan er að leikið sé heima og að heiman en núna er bara einn leikur að sökum kórónuveirufaraldursins. Leikið verður í Skotlandi sem er jákvætt vegna stöðunnar hér á landi. Kappleikir eru ekki leyfðir eins og er vegna veirunnar en í Skotlandi er úrvalsdeildin byrjuð að rúlla.

„Við vitum ekkert hvað hefði gerst ef við hefðum dregist heima, ég veit ekki hvernig það hefði farið. Við förum og spilum þennan leik, reynum að gera eins vel og við getum," segir Rúnar sem er þessa stundina að horfa á leik Celtic við Kilmarnock í skosku úrvalsdeildinni.

„Við ætlum að reyna að bjóða þeim upp á samkeppni, en það verður erfitt að slá þá út. Möguleikarnir eru meira með Celtic, það er ekki spurning. Við verðum að vinna leikinn til að fara áfram, jafntefli dugir ekkert. Það er ekkert útivallarmark á heimavelli núna. Þetta er snúið en við verðum að fara þokkalega brattir í þetta, verjast vel og reyna að finna einhverja veikleika."

„Þetta er lið sem var að byrja deildarkeppnina sína og eru í toppformi. Þeir eru langbesta liðið í Skotlandi og hafa verið að standa sig vel í Evrópukeppni. Við förum jákvæðir inn í þetta - það er gaman að vera í Meistaradeildinni."

KR og Celtic mættust síðast árið 2014 þar sem Celtic vann einvígið samanlagt 5-0. Núna er það bara einn leikur þar sem sigurvegarinn tekur allt saman.

Seinni hluti viðtals við Rúnar birtist síðar í dag á síðunni. Þar er rætt við hann um undirbúning KR fyrir leikinn og stöðuna í fótboltanum hér á landi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner