Birkir Bjarnason, landsliðsmaður Íslands, segir að leikmenn liðsins séu byrjaðir að einbeita sér að viðureigninni gegn Albaníu í undankeppni HM 2014 eftir svakalegan leik gegn Sviss.
Ísland lenti 4-1 undir í Bern en sýndi gríðarlegan karakter í seinni hálfleik og jafnaði metin í 4-4, sem urðu lokatölur.
„Þetta var rosalegur leikur, en ég held að allir séu byrjaðir að einbeita sér að næsta leik,“ sagði Birkir við Fótbolta.net.
„Við sýndum alveg frábæran karakter og sýnum að við getum haldið út alveg í 90 mínútur. Þetta var bara frábær leikur.“
Birkir segir að alls ekki sé hægt að bóka þrjú stig gegn Albaníu en hefur þó fulla trú á að Ísland geti unnið.
„Þetta er mjög sterkt lið og við sáum það alveg í síðasta leik úti, og ég held að við höfum kannski verið smá heppnir að fá þrjú stig. Við verðum að einbeita okkur í 90 mínútur og vita að þetta verður erfiður leikur.“
„Ég held að allir geti unnið alla, nema ef maður er einbeittur í 90 mínútur á maður að hafa mikinn séns.“
Viðtalið má sjá í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir