Varnarmaðurinn Hólmar Örn Eyjólfsson mun líklega ganga í raðir Vals á næstu dögum en samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur hann hafnað Víkingi, FH og fleiri liðum sem einnig vildu fá hann.
Hólmar hefur undanfarin ár leikið með Rosenborg í Noregi en fjölskylda hans flutti til Íslands á síðasta ári og hefur Hólmar sagt að það sé hans vilji að vera nálægt henni. Kýpverska félagið Apollon Limassol vildi fá Hólmar en hann hafði ekki áhuga áð að fara til Kýpur.
Hann sást funda með fulltrúum FH í lok síðasta mánaðar og fréttir bárust líka af áhuga Vals og Víkings. Hann hefur nú hafnað Víkingi, FH og fleirum liðum og ljóst að leiðin liggur á Hlíðarenda til Valsmanna sem hafa lagt mikið í að styrkja lið sitt í vetur.
Hólmar er 31 árs og er uppalinn hjá Tindastóli og HK. Hann hefur verið í atvinnumennsku frá árinu 2008, fyrst hjá West Ham en fór svo til Bochum, Rosenborg, Maccabi Haifa og Levski Sofia áður en hann sneri aftur til Rosenborg árið 2020. Á ferlinum hefur hann leikið nítján landsleiki og hætti að gefa kost á sér á síðasta ári.
Athugasemdir