Ungverjaland, Portúgal, Frakkland og Þýskaland
Á morgun er stóri dagurinn. Evrópumótið í fótbolta hefst þegar Ítalía og Tyrkland eigast við í opnunarleiknum.
Sumarið 2016 var skemmtilegasta sumar í manna minnum á Íslandi; pirringur Ronaldo, sigurinn á Austurríki, Gummi Ben og auðvitað sigurinn á móti Englandi. Svo má auðvitað ekki gleyma Víkingaklappinu.
Ísland var fimm mínútum frá því að komast á þriðja stórmótið í röð en draumar okkar urðu að engu á svipstundu gegn Ungverjalandi. Hugsum ekki meira um það; Evrópumótið er að hefjast. Það er spennandi stórmót framundan og höfum við á Fótbolti.net verið að hita upp fyrir mótið síðustu daga.
Núna er komið að umfjöllun um sjálfan dauðariðilinn, síðasta riðilinn í röðinni. Ísland hefði verið í þessum riðli ef við hefðum komist inn á mótið.
F-riðill:
Ungverjaland
Portúgal
Frakkland
Þýskaland
Riðillinn verður spilaður í: Búdapest og Münich.
Ungverjaland:
Jájá, við hefðum getað verið þarna í staðinn fyrir Ungverjaland... þeir komust inn á mótið með gríðarlega dramatískum sigri á Íslandi í úrslitum umspilsins. Þeir sneru leiknum við á síðustu stundu og tókst að vinna 2-1.
Dominik Szoboszlai, maðurinn sem eyðilagði drauma Ísland, er ekki með á mótinu vegna meiðsla. Það er áfall fyrir Ungverja sem eiga engan möguleika í þessum riðli. Það verður bara að segja eins og er.
Hryggjarsúlan:
Péter Gulácsi (markvörður RB Leipzig)
Willi Orbán (varnarmaður RB Leipzig)
Ádám Nagy (miðjumaður Bristol City)
Ádám Szalai (sóknarmaður Mainz)
Lykilmaðurinn: Willi Orban
Hann er gríðarlega öflugur varnarmaður og er leiðtoginn í þriggja manna hafsentakerfi Ungverjalands. Hann hefur spilað með RB Leipzig undanfarin ár og tekið þátt í uppgangi þeirra.
Fylgist með: Roland Sallai
Sóknarmaður Freiburg sem kemur til með að fylla í skarðið sem Szoboszlai. Hann kom að 14 mörkum í Þýskalandi á síðustu leiktíð og hann þarf að eiga gott Evrópumót ef Ungverjar ætla að eiga einhvern möguleika.
Portúgal:
Ríkjandi Evrópumeistarar Portúgals mæta með sterkara lið núna en fyrir fimm árum síðan. Það má ekki gleyma því að þeir höfnuðu í þriðja sæti í riðli sínum 2016, á eftir Ungverjalandi og Íslandi. Þeir enduðu samt á því að vinna mótið allt.
Cristiano Ronaldo er orðinn eldri en það eru fleiri frábærir leikmenn í liðinu núna en fyrir fimm árum síðan. Portúgalar eru líklegir til afreka.
Hryggjarsúlan:
Rui Patrício (markvörður Wolves)
Ruben Dias (varnarmaður Manchester City)
Bruno Fernandes (miðjumaður Manchester United)
Cristiano Ronaldo (sóknarmaður Juventus)
Lykilmaðurinn: Cristiano Ronaldo
Einn besti fótboltamaður allra tíma. Hann er orðinn 36 ára en skilar alltaf sínum mörkum. Hann var markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð.
Fylgist með: Renato Sanches
Miðjumaður sem floppaði hjá Bayern München og Swansea, en var afar góður fyrir Lille í Frakklandi á síðustu leiktíð. Hann hjálpaði Lille að verða franskur meistari. Þetta mót gæti verið stór auglýsingagluggi fyrir hann.
Frakkland:
Heimsmeistararnir sjálfir. Eins og Portúgal, eru þeir mjög líklegir til afreka á þessu móti. Frakkland er með magnaða leikmenn í sínum röðum og það verður erfitt að stöðva þá.
Það eru stórir persónuleikar í hópnum og það hefur gerst oftar en einu sinni að það verða leiðindi innan hópsins. Muniði eftir HM 2010? Ef Frakkarnir ná að standa saman og sýna mikla liðsheild, þá fara þeir alla leið. Það hlýtur að vera.
Hryggjarsúlan:
Hugo Lloris (markvörður Tottenham)
Raphaël Varane (varnarmaður Real Madrid)
N'Golo Kante (miðjumaður Chelsea)
Kylian Mbappé (kantmaður Paris Saint-Germain)
Lykilmaðurinn: N'Golo Kante
Besti leikmaður í heimi á árinu til þessa. Var magnaður á miðjunni þegar Chelsea vann Meistaradeildina á dögunum. Vinnur og vinnur, er algjör vél á miðjunni. Líka einstakur persónuleik sem hættir ekki að brosa.
Fylgist með: Karim Benzema
Kominn aftur í franska landsliðið eftir sex ára fjarveru. Einn besti sóknarmaður í heimi en hann spilar fyrir spænska stórveldið Real Madrid. Ástæðan fyrir fjarveru Benzema í landsliðinu var sú að hann var milliliður í því að reyna að kúga Mathieu Valbuena, fyrrum liðsfélaga sinn í liðinu. Núna er hann mættur aftur og mun berjast við Olivier Giroud um stöðuna í fremstu víglínu.
Þýskaland:
Þjóðverjar voru líklega það lið sem olli mestum vonbrigðum á HM 2018. Þeir sátu eftir í það sem átti að vera einfaldur riðill. Jogi Löw fékk að halda áfram með liðið en hann er að fara að stýra því í síðasta sinn á stórmóti.
Löw ætlaði að byggja á yngri leikmönnum og ákvað hann að henda yngri leikmönnum úr hópnum eftir HM. Það gekk ekki betur en það að hann er búinn að kalla upp Mats Hummels og Thomas Müller aftur í hópinn. Það vantar alvöru markaskorara í hópinn en það er erfitt að treysta á Timo Werner. Það verður áhugavert að sjá hvernig gengur hjá Þýskalandi í þessu móti og í þessum erfiða riðli þar sem árangurinn upp á síðkastið hefur ekki verið stórkostlegur.
Hryggjarsúlan:
Manuel Neuer (markvörður Bayern München)
Antonio Rüdiger (varnarmaður Chelsea)
Joshua Kimmich (miðjumaður Bayern München)
Serge Gnabry (kantmaður Bayern München)
Lykilmaðurinn: Joshua Kimmich
Getur leyst margar stöður á vellinum og er magnaður í þeim öllum. Líklegt að hann verði inn á miðjunni en gæti einnig spilað hægri bakvörð og fleira. Leikmaður sem öll lið í heiminum væru til í að hafa innan sinna raða.
Fylgist með: Jamal Musiala
Leikmaður sem spilaði sinn fyrsta A-landsleik gegn Íslandi í mars. Gat einnig valið að spila fyrir enska landsliðið en valdi það þýska frekar og hann er á leið á sitt fyrsta stórmót. Sóknarsinnaður miðjumaður sem er aðeins 18 ára gamall. Vakti athygli fyrir góða frammistöðu með aðalliði Bayern á tímabilinu.
Dómur Fótbolta.net
Frakkar vinna þennan riðil og þeir vinna mótið í heild sinni. Portúgal flýgur áfram í öðru sæti og Þýskaland tekur þriðja sætið með sigri gegn Ungverjalandi sem verður án stiga.
Það er komið að því, á morgun hefst EM! Gleðilega hátíð kæru lesendur.
Athugasemdir