Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mið 10. ágúst 2022 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Chicharito: United þarf að komast yfir Sir Alex Ferguson
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Javier Hernandez, fyrrum sóknarmaður Manchester United betur þekktur sem Chicharito, telur að Man Utd eigi enn eftir að komast yfir brotthvarf Sir Alex Ferguson frá félaginu.


Ferguson hætti þjálfun fyrir níu árum síðan, eftir tímabilið 2012-13, og hefur Man Utd ekki unnið nema einn deildabikar, einn FA bikar og eina Evrópudeild síðan. Evrópudeildin og deildabikarinn komu undir stjórn Jose Mourinho tímabilið 2016-17 á meðan félagið hafði unnið ógrynni titla undir stjórn Sir Alex.

„Það er ekki auðvelt fyrir knattspyrnufélag að jafna sig eftir að hafa misst mann eins og Sir Alex frá sér. Hann var hjá félaginu í 26 ár og var mögulega sá allra besti þegar kom að því að ná því besta úr sínum mönnum. Sjö af hverjum tíu leikmönnum sem hann fékk til félagsins gengu upp, það er mögnuð tölfræði sem ekki einu sinni félög á borð við Liverpool, Bayern eða Real Madrid geta stært sig af," sagði Chicharito þegar hann var spurður út í áhrifin sem brottför Sir Alex Ferguson hafði á Man Utd.

„Að fá svona mann við stjórnvölinn hjá sér er ekki ósvipað því að vinna í lottóinu. Þú þarft annan lottóvinning til að finna arftaka sem getur sinnt meira en 80% af starfinu sem Sir Alex sinnti. Það er ekki hægt að fylla í skarðið sem hann skildi eftir, að reyna það gerir ekkert nema auka pressuna á núverandi knattspyrnustjóra.

„United þarf að komast yfir þá staðreynd að Sir Alex Ferguson er farinn og hætta að bera nýja knattspyrnustjóra saman við hann. Auðvitað væri gott að lenda á öðrum svipuðum þjálfara en hann er farinn og mun ekki koma aftur. United þarf að leyfa nýjum stjóra að koma inn og gera hlutina eftir sínu höfði."

Chicharito spilaði undir stjór Sir Alex hjá Man Utd í þrjú ár og vann á þeim tíma tvo úrvalsdeildartitla og endaði í öðru sæti Meistaradeildarinnar.


Athugasemdir
banner
banner
banner