Isak fær ekki að fara - Liverpool leiðir kappið um Guéhi - Chelsea setur meira púður í Garnacho - Calvert-Lewin rak umboðsteymið
   sun 10. ágúst 2025 16:59
Ívan Guðjón Baldursson
Ólafur gerði fánamarkið - Mikael góður gegn AIK
Mynd: Álasund
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það var nóg um að vera í evrópska boltanum í dag og komu einhverjir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins.

Varnarjaxlinn Ólafur Guðmundsson var sá eini sem skoraði þegar hann gerði fánamarkið í stóru tapi Álasunds gegn Lilleström í næstefstu deild norska boltans. Lilleström er að valta yfir deildina og situr Álasund í þriðja sæti en það eru 15 stig sem skilja á milli liðanna. Lokatölur urðu 5-1 fyrir Lilleström.

Brynjólfur Andersen Willumsson lék þá allan leikinn er Groningen steinlá gegn AZ Alkmaar í fyrstu umferð nýs tímabils í efstu deild hollenska boltans. Á sama tíma var Kolbeinn Birgir Finnsson ónotaður varamaður hjá Utrecht sem vann þægilegan 4-0 sigur á heimavelli.

Í B-deildinni var Rúnar Þór Sigurgeirsson á sínum stað í byrjunarliði Willem II en tókst ekki að koma í veg fyrir stórt tap. Þegar staðan var orðin 4-1 fékk Rúnar að líta annað gula spjaldið sitt í leiknum og var sendur í sturtu. Lokatölur urðu 5-1.

Í sænska boltanum átti Mikael Neville Anderson góðan leik er Djurgården gerði markalaust jafntefli við AIK. Mikael og félagar eru um miðja deild, sjö stigum á eftir AIK sem er í baráttu um Evrópusæti.

Íslendingalið Norrköping tapaði þá á heimavelli með Arnór Ingva Traustason og Ísak Andra Sigurgeirsson í byrjunarliðinu. Jónatan Guðni Arnarsson kom inn af bekknum. Norrköping réði ekki við toppbaráttulið Hammarby og er fjórum stigum fyrir ofan fallsvæðið, með 19 stig eftir 19 umferðir. Hlynur Freyr Karlsson var ónotaður varamaður hjá Brommapojkarna í jafntefli gegn Öster.

Að lokum var Tómas Bent Magnússon ónotaður varamaður í dramatískum sigri Hearts á útivelli gegn Dundee Utd í efstu deild í Skotlandi. Hearts verðskuldaði sigurinn og er með sex stig eftir tvær fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.

Lilleström 5 - 1 Aalesund
1-0 S. Drammeh ('6)
2-0 E. Kitolano ('21)
3-0 T. Olsen ('52)
3-1 Ólafur Guðmundsson ('72)
4-1 M. Karlsbakk ('82)
5-1 E. Kitolano ('87)

AZ Alkmaar 4 - 1 Groningen

Utrecht 4 - 0 Heracles

Den Haag 5 - 1 Willem II

AIK 0 - 0 Djurgarden

Norrköping 0 - 2 Hammarby

Öster 1 - 1 Brommapojkarna

Dundee Utd 2 - 3 Hearts

Athugasemdir
banner