Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 10. október 2021 13:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gagnrýni á leikmenn - „Þegar smáblómið er að deyja þá syngjum við!"
Icelandair
Leikmenn ganga inn á völlinn gegn Armeníu.
Leikmenn ganga inn á völlinn gegn Armeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markinu fagnað gegn Armeníu.
Markinu fagnað gegn Armeníu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðið var gagnrýnt fyrir síðasta leik gegn Armeníu þar sem leikmenn tóku ekki undir með þjóðsöngnum fyrir leik.

Vísir birti frétt um að Kári Kristján Kristjánsson, margreyndur landsliðsmaður í handbolta, og Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, gagnrýndu leikmenn fyrir að syngja ekki með þjóðsöngnum.

„Þegar íslensk landslið ná lengst þá einkennast þau ef mikilli ákefð og stemningu. Nýja íslenska landsliðið er skipað efnilegum og flottum fótboltamönnum en skortir þessa liðsstemningu. Fyrsta skref: syngja með þjóðsöngnum. Áfram veginn," skrifaði Viðar á Twitter en hann benti einnig á rannsókn frá EM 2016 sem sýndi fram á að liðin sem sungu með þjóðsöngnum stóðu sig betur en hin.

Það var rætt um þetta í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær, laugardag.

„Ég er sammála þessu. Það er ekki að það sé minna þjóðarstolt eða neitt þannig hjá þessum ungu strákum. En hvað heldurðu að það séu margir landsleikir farnir á einu breitt? Áttahundruð eða eitthvað, út af einni eða öðrum ástæðum. Stemningin, sigurhefðin og gildin... þau eru ekki alveg þau sömu," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Það er enginn Kári, Raggi, Hannes... það eru farnir einhverjir 1000 landsleikir og allt sem við höfum skapað á síðasta áratug eða svo. Það þarf að finna gæjann sem kemur inn í klefann, kemur á fundinn og segir að þetta sé ekki í boði. 'Þegar smáblómið er að deyja þá syngjum við! Við gólum eins hátt og við getum, og erum stoltir af því að syngja þetta lag."

„Það þarf að byrja á því núna. Þeir sem eru að spila sína fyrstu landsleiki núna, þeir eru ekki að fara að byrja að syngja í fertugasta landsleiknum. Það þarf að halda þessu við. Það er stolt augnablik að fara inn í bláu treyjunni og þú átt að syngja með þjóðsöngnum," sagði Magnús Már Einarsson.

Hver og einn ákveður fyrir sig
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, og Birkir Bjarnason, sem er fyrirliði í þessu verkefni, sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og voru spurðir út í þessa umræðu.

„Mér finnst það sérstakt að hann komi með þetta núna. Ég hef verið í landsliðinu í 11-12 ár. Það hefur verið þannig að sumir syngja og sumir ekki. Sumir syngja inn í sér. Það verður að vera þannig að hver og einn ákveður fyrir sig," sagði Birkir.

„Mér finnst hann fara yfir strikið með því hvernig hann orðar þetta. En það mega allir hafa sínar skoðanir."

„Ég hef ekki mikið við þetta að bæta," sagði Arnar. „Ég hef ekki lesið þetta sjálfur. En ef það er verið að tala um liðsandann og andleysi, þá er ég ekki sammála. Ég held að liðsandinn sé mjög góður í hópnum. Strákarnir sýndu það gegn Armeníu hversu mikill viljinn er að koma til baka, að vinna leikina og taka öll þessi skref saman. Mér finnst það frekar sérstakt ef fólk utan hóps er farið að tala um það sem gerist innan hóps. En það er kannski bara ég."

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi KSÍ, tók þá til orðs og sagði: „Ég held að Birkir sé ekki að fara að byrja að syngja í landsleik númer 103. Fólk getur bara alveg slappað aðeins af."
Landsliðsumræða - Tómlegur völlur og döpur úrslit
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner