mið 11. janúar 2023 09:00
Elvar Geir Magnússon
Ungstirni Man Utd skinu skært - Sautján ára strákur fær lof
Kobbie Mainoo.
Kobbie Mainoo.
Mynd: Getty Images
Alejandro Garnacho.
Alejandro Garnacho.
Mynd: Getty Images
Manchester United flaug í undanúrslit Carabao deildabikarsins með 3-0 sigri gegn Charlton í gær. Þrír af ungu leikmönnum United fá lof fyrir frammistöðu sína í leiknum.

Það eru hinn 17 ára gamli Kobbie Mainoo, Alejandro Garnacho sem er 18 ára og Facundo Pellistri sem er 21 árs og kom af bekknum og gaf stoðsendingu.

Mainoo var eins árs síðast þegar United lék gegn Charlton, í febrúar 2007, en hann lék í gær sinn fyrsta aðalliðsleik fyrir Rauðu djöflana. Mainoo var í byrjunarliðinu.

„Mainoo var öryggið uppmálað í sínum fyrsta keppnisleik fyrir aðalliðið. Honum leið vel á miðsvæðinu og átti góðar rispur á síðasta þriðjungi," segir í umfjöllun Daily Mail en Mainoo er áttundi leikmaðurinn sem fær sinn fyrsta leik með United undir stjórn Erik ten Hag.

Þess má geta að Mainoo skoraði í æfingaleik með United gegn Cadiz fyrir nokkrum vikum síðan. Hann lék 60 mínútur í gær og fékk standandi lófaklapp þegar hann var tekinn af velli.

Garnacho bjó til vandræði fyrir Charlton trekk í trekk
Garnacho var óheppinn að skora ekki í leiknum en hann bjó til alls konar vandræði fyrir varnarmenn Charlton og gerði bakverðinum Sean Clare lífið leitt.

Þá kom úrúgvæski vængmaðurinn Pellistri af bekknum og fékk loksins tækifæri með aðalliðinu. Hann kom ekki inn fyrr en á 84. mínútu en náði þó að nýta mínúturnar sem hann fékk afskaplega vel. Hann lagði upp þriðja mark United, annað mark Marcus Rashford, og skapaði fleiri tækifæri.

Það voru þó ekki allir ungu leikmenn United sem voru í stuði í gær. Anthony Elanga, sem er ári yngri en Pellistri, fann sig ekki í fremstu línu hjá United.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner