Máni Austmann í leikum í gær, Dagur tvíburabróðir hans er eini leikmaðurinn sem hefur gengið til liðs við Fjölni í vetur en þrír eru farnir.
„Ég hef oft sagt að við ætlum okkur að fara upp í efstu deild en á okkar forsendum," sagði Úlfur Arnar Jökulsson þjálfari Lengjudeildarliðs Fjölnis við Fótbolta.net í gær.
„Við eigum ekki bolmagn til að kaupa útlendinga eða góða leikmenn og borga morðfjár í laun, 'kaupa okkur upp'. Við þurfum að vera klókir með hvaða leikmenn við sækjum og ef það eru margir að bjóða í þá, þá töpum við því."
„Við þurfum að selja þeim þetta á öðrum forsendum . Við þurfum rosalega á því að halda að ungu strákarnir okkar brjótist í gegn og leggjum mikla áherslu á það. Ég held það séu 12 leikmenn 21 árs og yngri í hópnum núna. Svo þetta er svolítið ungt.Við misstum reynslu og söknum klárlega raddanna sem við misstum en á móti kemur að það er meiri orka og áræðni í liðinu. "
Mikilvægt að komast upp til að halda leikmönnum lengur
Aðspurður hvort hann teldi félagið standa nógu mikið með sér í því sem hann þarf í sitt starf með liðið og hvort hann fengi allt sem hann vildi sagði Úlfur.
„Já 100%! Ég sýni því skilning að Fjölnir hefur aldrei verið ríkt félag. Það er oft talað um að við séum stórt félag og við erum það vissulega, en ekki í því fjármagni og bolmagni til þess. Við þurfum á því að halda að það komi strákar í gegnum starfið okkar. Við búum líka við það vandamál að það er krafa um að við spilum á ungu strákunum en við eigum líka að vera að berjast um efstu fjögur sætin í efstu deild og ná í Evrópusæti."
„Þetta helst ekki endiega saman og við missum strákana frá okkur ef við erum ekki í efstu deild. Þetta er smá haltu mér slepptu mér. Við misstum Lúkas í fyrra og Hans Viktor tók skrefið núna að fara í efstu deild þó hann hafi gert það seint og verið að flakka upp og niður með okkur. Þessir strákar eru orðnir nógu góðir og ef við erum ekki á stærsta sviðinu þá fara þeir þangað óumflýjanlega. Það er því mikilvægt að við komumst upp til að halda þeim lengur."
Mér finnst á hvernig þú talar að þú sért búinn að loka hópnum, ætlarðu ekki að styrkja liðið meira?
„Hópurinn er alltaf opinn þannig en við ræddum í haust að gefa ungu strákunum sénsinn og þeir hafa staðið sig vel, sækja svo Dag Austmann sem tókst, og svo ætluðum við bara að sjá til. Ef okkur finnst þegar nær dregur að okkur vanti tilfinnanlega leikmann í einhverja stöðu þá munum við athuga hvort við finnum einhvern og getum fengið hann. Eins og staðan er núna erum við samt að prófa okkur áfram með þetta. Við lokum aldrei hópnum heldur metum alltaf stöðuna."
Voru bara búnir að spila einn góðan hálfleik í vetur
Þegar Úlfur ræddi við Fótbolta.net í gær hafði nýlokið leik liðsins gegn Bestu-deildar liði HK sem Fjölnir vann nokkuð auðveldlega 3 - 0, fyrsti sigurleikur liðsins í vetur.
„Það var mjög dýrmætt að halda markinu hreinu og þetta var klárlega okkar heilsteyptasta frammistaða í vetur," sagði Úlfur.
„Að mínu mati vorum við bara búnir að spila einn góðan hálfleik í allan vetur og því var mjög gott ná tveimur góðum hálfleikjum í dag og ég hrósa strákunum fyrir flottan leik."
Fjölnir fékk aðeins eitt stig úr fjórum leikjum í Reykjavíkurmótinu, jafntefli gegn Leikni og var með markatöluna 2 - 3. Sigurinn í gær var fyrsti leikur liðsins í Lengjubikarnum og Úlfur telur að sigurinn gæti gefið liðinu byr undir báða vængi?
„100%. Þetta eru bara æfingaleikir yfir veturinn en þegar komið er í Lengjubikarinn þá finnur maður að sólin skín lengur á daginn og það styttist í mót. Þá vill maður góða frammistöðu og það hjálpar mikið þegar sigrarnir fylgja með. Mér fannst við fyrst og fremst mjög flottir varnarlega í dag en við hefðum þess vegna geta skorað fleiri mörk. Við einbeittum okkur samt að skipulögðum varnarleik og mér fannst hann góður sama hvort að var ofarlega eða neðarlega á vellinum."
Desember rosalega erfiður veikindalega
Sem fyrr sagði tapaði Fjölnir þremur leikjum gegn Fylki, Víkingi og ÍR án þess að skora mark í Reykjavíkurmótinu og gerði eitt jafntefli við Leikni en liðið hefur ekki litið vel út það sem af er. En hverju svaraði Úlfur þegar hann var spurður út í ástæðu þess að það hafi gengið svona illa sagði hann.
Sko...," svaraði Úlfur og hugsaði sig vel um. „Við erum búnir að vera í ströggli með lykilmenn, ekki með meiðsli en eymsli. Desember var rosalega erfiður mánuður veikindalega séð. Það veiktust mjög margir illa og voru lengi frá og svo vorum við búnir að gefa út jólafrí sem ég gat ekki tekið til baka. Því voru margir leikmenn á byrjunarreit í janúar. Við spiluðum kafla úr sumum leikjum í Reykjavíkurmótinu mjög vel en gerðum til dæmis fjögur mistök í fyrri hálfleik gegn Víkingi og þeir refsuðu okkur með því að skora fjögur mörk og það er 4-0 í hálfleik. Þetta er besta lið á landinu. Mér fannst við eiga að vinna bæði Leikni og ÍR en vorum ofboðslega slappir sóknarlega. Ég finn að menn eru einbeittari á æfingum núna og þeir finna að þeir þurfa að bæta í og gera betur. Sigurinn í dag gefur góð fyrirheit með það."
Ert þú búinn að vera rólegur yfir þessu?
„Jájá, það sem ég hef haft áhyggjur af er hvað það var lítið að frétta framávið hjá okkur og við sköpuðum okkur lítið. Ég hugsa að við höfum verið yfir 80% með boltann á móti ÍR en gerðum ekki nokkurn skapaðan hlut fyrir utan fyrsta korterið. Samt höfum við skorað yfir 50 mörk síðustu tvö sumur. Ég vildi því bíða með að hafa stórar áhyggjur því við vitum hvað við getum. Þó það gangi ekki vel í janúar þá bíður maður með að hafa áhyggjur."
Erum ekki í góðgerðarstarfsemi
Sem fyrr sagði hefur Fjölnir styrkt sig með Degi Austmann sem kom frá Grindavík en liðið hefur misst Hans Viktor Guðmundsson í KA auk þess sem Bjarni Gunnarsson, Dofri Snorrason og Guðmundur Júlíusson hafa lagt skóna á hilluna. Það er því mikil reynsla farin úr liðinu.
„Við leystum marga af þeim sem fóru frá okkur með mönnum innanhúss," sagði Úlfur. „Við sóttum Dag Austmann en misstum Dofra og Bjarna Gunn og svo fór Hans í KA. Gummi Júl hætti líka en hann spilaði ekkert síðasta tímabil svo það telst ekki alveg með. Við erum að fylla upp í skörðin sem Hans Viktor og Bjarni skilja eftir sig með ungum leikmönnum og Dagur er hugsaður í stöðuna sem Dofri spilaði. Svo getur þetta allt breyst eftir sem líður á en við erum með marga stráka fædda 2003 og 2004 sem hafa stigið upp síðustu 2-3 ár og planið var að gera þá tilbúna. Núna er sviðið þeirra, við höfum spilað með tvo 19-20 ára í hafsentum í allan vetur og þeir eflast með hverjum leik."
Er yfirlýst markmið hjá þér að yngja upp og gefa þeim séns?
„Ekki yngja upp en ef uppaldir leikmenn eru nógu góðir þá spila þeir. Við viljum að ungir Fjölnismenn brjótist í gegn en við erum ekki í góoðgerðarstarfsemi. Við spilum þeim ekki 'afþví bara'. Þeir þurfa að standa undir því og mér finnst þeir virkilega tilbúnir núna og þess vegna ákváðum við að setja traustið á þá. Það er kannski djörf ákvörðun að skipta út, að öðrum ólöstuðum, besta leikmanni liðsins í Hans Viktori, með tvítugum strák, en við höfum trú á því að hann verði nýr Hans. Hans Viktor fékk tækifærið snemma, og Torfi Tímoteus líka. Hann og Hans voru saman í vörninni 20-21 árs. Það má ekki gleyma því að svona verða þessir leikmenn til."
Athugasemdir