Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 11. maí 2023 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stjörnumenn svara - „Handviss um að Gústi hefði snúið dæminu við"
Ágúst Gylfason, fyrrum þjálfari Stjörnunnar.
Ágúst Gylfason, fyrrum þjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull Elísabetarson tekur við liðinu.
Jökull Elísabetarson tekur við liðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Jóhannsson er á meðal álitsgjafa en hérna fagnar hann marki með Stjörnunni.
Atli Jóhannsson er á meðal álitsgjafa en hérna fagnar hann marki með Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er alltaf stuð hjá Silfurskeiðinni.
Það er alltaf stuð hjá Silfurskeiðinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan fagnar marki.
Stjarnan fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Jökull og Gústi.
Jökull og Gústi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fréttir bárust í gær um þjálfaraskipti hjá Stjörnunni. Ágúst Gylfason hefur verið látinn fara og mun ekki stýra liðinu áfram. Jökull Elísabetarson tekur við liðinu af honum. Ágúst tók við Stjörnunni fyrir síðasta tímabil og var Jökull þá ráðinn aðstoðarþjálfari hans.

Stjarnan hefur byrjað þetta tímabil illa og er liðið í ellefta sæti Bestu deildarinnar með aðeins þrjú stig en liðið tapaði síðasta leik sínum gegn Fram, 2-1.

Ágúst sagði í viðtali við Fótbolta.net í gær að hann hefði viljað fá meiri tíma til að snúa genginu við. „Ég vildi fá tækifæri til að sýna að ég sé góður þjálfari og geti snúið genginu við þegar illa gengur."

En hvað segja stuðningsmenn Stjörnunnar við þessum fréttum? Við fengum nokkra stuðningsmenn liðsins til að svara þremur spurningum í kjölfarið á þessum tíðindum. Þessar spurningar voru lagðar fyrir:

1. Hvað finnst þér um þá ákvörðun að reka Ágúst?

2. Er það rétt að reka Ágúst og ráða aðstoðarmann hans, Jökul, í staðinn?

3. Hverju ertu að vonast eftir frá liðinu á þessu tímabili úr því sem komið er?

Hér fyrir neðan má svörin hjá stuðningsmönnum liðsins.

Atli Jóhannsson
1. Það er aldrei auðveld ákvörðun að láta góða menn fara og hvað þá strax í byrjun maí. Gústi er flottur þjálfari og enn betri persóna en auðvitað er áhyggjuefni að liðið sé einungis komið með þrjú stig af 18 mögulegum. Eitthvað hefur verið um meiðsli og nokkrir leikmenn að koma til baka en heilt yfir hefur þetta verið stöngin út þrátt fyrir ágæta spretti inn á milli og þannig getur það oft verið.

2. Persónulega hefði ég viljað gefa honum meiri tíma í að rétta skútuna af en að ákveðnu leyti skil ég ákvörðunina. Fótboltaheimurinn er harður og það er nú bara þannig að þegar vel gengur er leikmönnum hampað en þegar illa gengur þá fara margir að spá í hitastiginu á þjálfarasætinu. En ungir strákar verða aldrei góðir leikmenn nema þeir fái vettvang til þess að gera sín mistök og verða betri. Gústi hefur staðið sig vel í að gefa mönnum sénsinn en þetta ferli getur stundum verið erfitt hjá stóru klúbbunum þegar krafa er um árangur eða stigasöfnun á sama tíma.

Það verður fróðlegt að sjá hvað Jökull gerir og hvort hann gerir einhverjar áherslubreytingar en leikmennirnir verða auðvitað líka að líta inn á við og skoða hvað þeir sjálfir geti gert betur. Það eru jú þeir sem eru ábyrgir inni á vellinum og besta leiðin til að svara þessu er alltaf í næsta leik.

3. Nú gengur ekkert að liggja yfir stöðutöflunni alla daga og velta sér upp úr því sem er búið, næsti leikur er bara forgangsatriði og mikilvægt að hugsa um að ná í sigur þar áður en hægt er að tengja saman sigurleiki. Það er nóg eftir að þessu móti, bikarkeppnin ennþá á lífi, Dúllubarinn verður áfram opinn og nægur tími til góðra hluta. Stuðningurinn er líka mikilvægur, sérstaklega þegar liðið er í miðjum kynslóðaskiptum og vonandi halda bæjarbúar áfram að mæta á völlinn og styðja þetta unga lið (og Danna Lax) með jákvæðum hætti.

Haukur Þorsteinsson
1. Þegar ég fékk fyrirspurn frá Fótbolta.net fæ ég þetta rosalega Dejavu og því hefur þessi ákvörðun eitthvað kraumað undir. Ég hefði viljað gefa Gústa meiri tíma og það þrátt fyrir að mistökin í upphafi móts hafi verið þónokkur. Það þarf bara meira til að hreyfa við íhaldsmanni.

Við vorum til dæmis búnir að spila við Íslandsmeistarana, sjóðheita Víkinga og enn heitari Valsmenn, auk þess að við spiluðum við FH í aðstæðum sem gert er ráð fyrir í hamfarasjóði. Alla aðra daga hefðum við klárað Fimleikafélagið og það með léttum leik. Næst á dagskrá er prógramm sem er mun léttara á pappír.

Ég er því handviss um að Gústi hefði snúið dæminu við og bjargað tímabilinu við miðja deild í haust. Það voru engar áhyggjur af veru Stjörnunnar í deildinni 2024, með óbreytt teymi eða ekki, gleymdu því. Á móti kemur eru réttilega gerðar meiri kröfur.

2. Ég veit ekki til þess að það séu stærri bitar lausir á markaðnum. Miðað við umræðuna sem er í gangi á fjölmiðlatorgi mun lítið breytast. En er ekki betra að sá sem siglir sé á bak við stýrið líka?

Jökull fær væntanlega inn mann, sér til aðstoðar, og vonandi aðhald sem endurspeglar gagnrýnisraddir á sama tíma. Það er deginum ljósara að Stjarnan þarf að gera breytingar inn á vellinum. Á endanum er Jökull allt of verðmætur félaginu til að senda sjóleiðina burt. Hann er framtíðin - íslenski Jurgen Klopp. Vonandi fær Stjarnan Gumma Ben inn í teymið.

3. Fyrir utan klisjur, á borð við einn leik í einu og að tengja saman sigra, þá vona ég að hópurinn standi undir væntingum og hífi liðið upp í baráttuna um niðurskurðinn fyrir úrslitakeppnina. Við fáum að sjá Emil Atla fljótlega og vonandi Halla sem fyrst en það þarf að styrkja hópinn meira. Svo erum við áfram í bikarnum og ég set stefnuna á eftirminnilega kvöldstund í Laugardalnum.

Hákon Freyr Waage
1. Ég skil ákvörðunina að reka Gústa, þó ég sé ekki að fullu sammála henni akkúrat á þessum tímapunkti. Liðið hefur átt erfiða leiki síðustu umferðir og horfði ég á það að nú væri þetta að lifna við, liðið var farið að skora mörk og leit allt í lagi út þó það vantaði eitthvað uppi.

2. Nei, ekki eftir sex umferðir, ég skil að sætið var heitt, en þetta er ungt lið sem Gústi var að setja saman ásamt Jökli og hefði klárlega mátt fá lengri tíma til að stilla strengi. Mér finnst þetta bera pínu snöggt að, og líklega enginn á lausu sem gæti hentað að koma inn strax. Þannig að líklega er Jökull fínn til að klára tímabilið og fara svo í leit að öðrum eftir tímabilið, en við sjáum fyrst hvernig jökull stendur sig. Þeir hafa verið að vinna þetta saman þannig að kannski er besta lausnin í núverandi stöðu að láta Jökul taka keflið.

3. Það er búið að lengja tímabilið um þessa extra leiki, en það eru sex umferðir búnar og við erum með þrjú stig. Ég er ennþá bjartsýnn á efri hluta deildarinnar, en það verður að sjá hvernig liðið tekur í brotthvarf Gústa. Ég hafði trú á að eftir Framleikinn væri allt á leið upp, og ég trúi því ennþá.

Lúðvík Örn Steinarsson
1. Það er alltaf erfitt að segja þjálfara upp störfum. Gústi hafði gert marga mjög góða hluti fyrir okkur - gefið ungum mönnum tækifæri og við spiluðum á tíðum stórskemmtilegan fótbolta. Ég skil hins vegar að það þurfti að bregðast við með einhverjum hætti eftir niðurstöður og frammistöðu í síðustu leikjum.

2. Jökull er spennandi þjálfari, það er engin spurning. Hann þekkir leikmannahópinn vel og nú er það hans að snúa genginu snarlega við. Þetta er stórt verkefni sem hann fær í hendurnar og nú er það hans að sýna sig og sanna ásamt leikmönnunum okkar.

3. Það er í sjálfu sér mikið eftir af tímabilinu og ég ætla að leyfa mér að vera vongóður. Við fengum 11 stig úr sex fyrstu umferðunum í fyrra en þrjú úr þeim sex síðustu núna. Ég vona að það verði bara slíkur viðsnúningur í hina áttina í sumar. Það eru að mínu mati raunhæfar væntingar að gera kröfu um að vera í topp sex (efri hlutanum) í Bestu deildinni. Annað yrði vonbrigði. Síðan erum við enn með í Mjólkurbikarnum og náum vonandi langt þar. Nú snúa Stjörnumenn- og konur bökum saman, innan vallar sem utan. Það er ég sannfærður um.


Er Arne Slot rétti maðurinn fyrir Liverpool?
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner