Enn eitt árið er búist við því að Liverpool og Manchester City muni berjast um Englandsmeistaratitilinn.
Þessi lið voru í algjörum sérflokki á síðustu leiktíð og myndi það ekki koma á óvart ef það verður þannig aftur. Það var aðeins rætt um þetta í sérstökum Liverpool hlaðvarpsþætti sem var hér á síðunni í síðustu viu.
„Það fer kannski í taugarnar á Man Utd mönnum, Chelsea mönnum og fólki að Liverpool séu góðir, að við séum nálægt toppnum og eitthvað," sagði útvarpsmaðurinn Atli Már Steinarsson í þættinum.
„Síðan fór ég að hugsa að ef Liverpool væri ekki þarna, þá væri City að rúlla yfir deildina ár eftir ár. Þá værum við með Þýskaland pínu þar sem þú ert með Bayern. Þá værum við með þannig lið og eina baráttan væri um það hvaða lið myndu fylgja þeim í Meistaradeildarsætin."
„Sem er ömurlegt. Þú ert að segja að þetta fólk eigi að vera þakklát fyrir Liverpool?" spurði skemmtikrafturinn Sóli Hólm.
„Pínu. Öll hin liðin, það er ekki eins og þau hafi ekki verið að reyna. Við erum eina liðið sem höfum náð í að halda í við þá. Það er galið af því að þetta Man City lið er eins og eitthvað Space Jam lið, það eru ofurleikmenn út um allt," sagði Atli þá.
„Hin liðin hafa verið að reyna. Chelsea og United hafa eytt fáránlegum peningum á þessum tíma, en árangurinn ekki komið með. Chelsea reyndar vann Meistaradeildina, en samt. Þetta hefur ekki fylgt með því það hefur vantað höfuðið," sagði Sóli en höfuð Liverpool er auðvitað sjálfur Jurgen Klopp.
Liverpool sá til þess að búa til spennu í titilbaráttunni í fyrra, önnur lið gerðu það ekki. City er með gríðarlega fjársterka eigendur sem hafa dælt peningum í félagið síðustu ár. Eftir að Pep Guardiola tók svo við stjórnartaumunum hjá City þá hefur verið ansi erfitt að fyrir önnur lið að stöðva þá. Liverpool er það lið sem hefur veitt þeim hvað mesta samkeppni.
Síðast þegar eitthvað annað lið en City og Liverpool vann titilinn, það var árið 2017 þegar Chelsea fór með sigur af hólmi.
Athugasemdir