Það átti óhugnalegt atvik sér stað í seinni hluta ágústmánaðar þegar Kári og Sindri áttust við í Akraneshöllinni í 3. deild karla.
Staðan var 0-1 fyrir Sindra á 80. mínútu leiksins þegar gestirnir sendu langan bolta fram og gerðu sig líklega til að komast í skyndisókn.
Björgvin Ingi Ólason, 19 ára sonur Óla Stefáns Flóventssonar fyrrum þjálfara Sindra og KA meðal annars, lenti þar í afar slæmu slysi þegar hann klessti utan í steinsteyptan vegg í höllinni.
Björgvin var á fullri ferð í kapphlaupi við varnarmann Kára um boltann. Þegar komið var nálægt hliðarlínunni notaði varnarmaður Kára öxlina sína til að hafa betur í kappinu, sem varð til þess að Björgvin missti allt jafnvægi og gat ekki komið í veg fyrir harkalegan árekstur.
Björgvin handleggsbrotnaði illa við slysið og þarf að fara í aðgerð til að græða beinið aftur saman. Auk þess hlaut hann skurð á andliti og þarf að fara í tannaðgerð, þar sem nokkrar tennur losnuðu í munni auk vírs í teinum sem hann er með.
Leikinn má sjá hér fyrir neðan og gerist atvikið eftir rúmlega 79 mínútur af venjulegum leiktíma, eða eftir eina klukkustund og 54 mínútur af myndbandinu sjálfu.
Athugasemdir