Frank vill endurnýja kynni sín við Schade - Guehi eftirsóttur - Upamecano til Liverpool?
banner
   lau 11. október 2025 22:30
Ívan Guðjón Baldursson
Nagelsmann kemur Wirtz til varnar: Hefur skapað flest færi
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Julian Nagelsmann landsliðsþjálfari Þýskalands hefur komið Florian Wirtz til varnar eftir mikla gagnrýni á upphafi tímabils.

Liverpool bætti félagsmet til að kaupa Wirtz úr röðum Bayer Leverkusen í sumar en leikmaðurinn er aðeins kominn með eina stoðsendingu í tíu leikjum í öllum keppnum þrátt fyrir að vera fastamaður í byrjunarliðinu.

„Þó að hann sé ekki búinn að skora eða leggja upp þá er hann sá leikmaður í úrvalsdeildinni sem hefur skapað mest af marktækifærum," sagði Nagelsmann, en þessi ummæli eru ekki alveg sönn því Wirtz er ekki meðal þeirra fimm sem hafa skapað flest færi úr opnum leik á úrvalsdeildartímabilinu.

Hann er hinsvegar sá úrvalsdeildarleikmaður sem hefur skapað hvað mest, ásamt Jack Grealish, í öllum keppnum á tímabilinu, ef Meistaradeildin og Samfélagsskjöldurinn eru talin með.

„Þessi tölfræði segir ekki einu sinni einn þriðjung af sögunni, það er ekki honum að kenna að liðsfélagarnir eru ekki að leggja upp fyrir hann.

„Hann er með gott sjálfstraust, hann trúir á sjálfan sig og veit hvers hann er megnugur. Hann þarf aðeins meiri tíma til að venjast nýrri deild."


Wirtz lék allan leikinn í 4-0 sigri Þýskalands gegn Lúxemborg en skoraði hvorki né lagði upp.

Þessi tölfræði vekur athygli í ljósi þess að Wirtz kom að 46 mörkum í 63 deildarleikjum með Bayer Leverkusen síðustu tvö keppnistímabil.
Athugasemdir
banner