Pétur Theodór Árnason varð fyrir því óláni að meiðast á hné í leik með Gróttu síðasta sumar. Pétur reif liðþófa og þurfti að fara í aðgerð sem var sú fjórða á sama hnénu. Hann var búinn að skora sex mörk í níu leikjum með Gróttu áður en hann meiddist.
Pétur sagði við Fótbolta.net í vetur að hann ætlaði sér að taka ákvörðun í febrúar.
Pétur sagði við Fótbolta.net í vetur að hann ætlaði sér að taka ákvörðun í febrúar.
Fótbolti.net ræddi við framherjann stæðilega í dag og sagði hann frá því að hann og Breiðablik hefðu komist að samkomulagi um riftun á samningi en hann var samningsbundinn út komandi tímabil.
„Skrokkurinn er þokkalegur, hnéð er gott en formið mætti vera betra," sagði Pétur við Fótbolta.net.
„Ég má í raun gera allt á æfingum, var byrjaður í sendingaræfingum og aðeins að fikra mig áfram. Ég ákvað í síðustu viku að stíga aðeins frá þessu þannig ég og Breiðablik ákváðum að rifta. Þetta var alltaf að fara vera langsótt hjá mér í Breiðabliki í sumar þannig mér fannst best bara að stíga aðeins frá þessu og sjá til hvað ég vil gera í sumar. Hvort sem það verði að halda áfram einhvers staðar eða bara segja þetta gott."
Er eitthvað plan sem þú vilt elta næstu vikur?
„Eins og staðan er í dag er ég bara að reyna koma mér í betra stand sjálfur og svo ætla ég bara að sjá til. Ég er frekar rólegur," sagði Pétur.
Pétur er 28 ára framherji sem hefur skorað 104 mörk í 197 KSÍ leikjum á sínum ferli. Hann var markakóngur Lengjudeildarinnar 2021 með 23 mörk og var í kjölfarið fenginn í Breiðablik. Hann missti af öllu tímabilinu 2022 vegna hnémeiðsla. Hann er uppalinn í Gróttu en á einnig leiki fyrir Kríu.
Athugasemdir