Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 12. júlí 2020 21:34
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikmaður Skallagríms biðst afsökunar: Ummælin áttu ekki að vera rasísk
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær.
Mynd: Guðmundur Arnar Sigurðsson
Mynd: Guðmundur Arnar Sigurðsson
Atli Steinar Ingason, leikmaður Skallagríms, sem sakaður er um kynþáttafordóma í leik gegn Berserkjum hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.

Einar Guðnason, aðstoðarþjálfari Víkings, deildi því á Twitter og Viktor Hugi Henttinen, aðstoðarþjálfari Berserkja, tjáði sig um málið í samtali við Fótbolta.net.

„Ég var á hliðarlínunni og var því ekki í hitanum en það sem strákarnir segja mér og vinir okkar í Skallagrími eru sammála okkur þá varð smá hiti og einhverjar tæklingar. Í kjölfarið snýr leikmaður númer fimmtán í Skallagrími [Atli Steinar Ingason] sér við og segir 'drullastu heim til Namibíu' við Gunnar Jökul Johns, leikmann okkar," sagði Viktor Hugi.

„Kormákur [Marðarson] leikmaður okkar, hafði heyrt fimm mínútum áður, sama einstakling [númer 15] kalla Gunnar 'apakött'. Kormákur spurði númer 15 hvað kallaðiru hann og hann endurtók 'apaköttur'. Þetta er leiðinlegt mál."

Twana Khalid Ahmad var dómari leiksins og talaði hann ensku við leikmenn í leiknum. Hann skildi því ekki hvað fór fram á milli leikmanna. Atvikið átti sér stað í byrjun seinni hálfleiks í leiknum.

Yfirlýsinguna frá Atla Steinari má lesa í heild sinni hér að neðan.

Yfirlýsingin
Í knattspyrnuleik Skallagríms og Berserkja föstudaginn 10. júlí sl. lét ég óviðeigandi ummæli falla í garð leikmanns Bersekja. Þau ummæli áttu engan rétt á sér þó þau væru sögð í hita leiksins. Það skal jafnframt tekið fram að af minni hálfu þá áttu þessi ummæli ekki að vera rasísk að neinu leyti þó þau hafi verið túlkuð á þann veg m.a. af fjölmiðlum. Ég get ekki annað gert en stigið fram, viðurkennt mín mistök og beðist afsökunar á þessum ummælum og bætt ráð mitt. Ég hef mikið keppnisskap og það hefur stundum verið mér fjötur um fót og því hef ég leitað til sérfræðinga síðustu mánuði til þess að fá hjálp og mun gera það áfram. Enda afsakar mikið keppnisskap ekki óviðeigandi framkomu eða ummæli í garð andstæðinga, dómara en annarra sem að íþróttum koma. Ég ítreka enn og aftur að ég biðst innilegrar afsökunar á ummælum mínum og vona að þeir sem hlut eiga að máli taki það til greina.

Það skal einnig tekið fram að ég einn er ábyrgur fyrir ummælum mínum og hegðun og ég mun taka afleiðingunum og gera allt sem í mínu valdi stendur til að bæta ráð mitt.

Ég vil að lokum vekja athygli á því að mér hefur fundist ósanngjarnt að fjölmiðlar og fleiri hafa treyst sér til að fjalla um málið eða hafa í frammi ummæli um það án þess að hafa haft samband við mig eða kynnt sér málið frá öllum hliðum.

Virðingarfyllst
Atli Steinar Ingason

Sjá einnig:
Ábendingar um að sami maður hafi fengið tveggja ára bann frá KSÍ 2015
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner