Það kom mörgum á óvart þegar Ryan Gravenberch var ekki í leikmannahópi Liverpool í leiknum um Samfélagsskjöldinn á sunnudaginn.
Gravenberch er orðinn mikilvægur hlekkur á miðjunni hjá Liverpool og óttuðust stuðningsmenn að hann væri meiddur þegar þeir sáu hann ekki í hóp gegn Crystal Palace á Wembley.
Arne Slot svaraði spurningum að leikslokum og fullvissaði stuðningsmenn um að ekkert amaði að hjá Gravenberch.
„Ryan Gravenberch var ekki í hóp útaf því að hann varð pabbi í gærkvöldi," sagði Slot meðal annars við fréttamenn. Þetta þýðir að Gravenberch er ekki tæpur fyrir upphaf úrvalsdeildartímabilsins sem er mikill léttir fyrir áhagendur Liverpool.
Slot svaraði ýmsum spurningum eftir lokaflautið. Hann var meðal annars spurður út í pressuna sem fylgir því að hafa keypt svona marga nýja leikmenn til félagsins í sumar, hvort það hafi haft áhrif á frammistöðuna í tapleiknum gegn Palace.
„Það er alltaf pressa á okkur útaf því að við erum Liverpool. Það skiptir ekki máli hvaða leikmenn við kaupum til félagsins, við erum alltaf Liverpool. Hvort sem við kaupum 0 eða 10 leikmenn þá er það alveg eins, það er alltaf pressa þegar þú klæðist þessari treyju."
Liverpool er búið að kaupa leikmenn fyrir tæplega 300 milljónir punda í sumar en Englandsmeistararnir hafa einnig selt leikmenn fyrir tæpar 200 milljónir.
10.08.2025 13:00
Byrjunarlið Palace og Liverpool: Nýju strákarnir byrja
Athugasemdir