
Hallgrímur Heimisson mun aðstoða Matthías Vilhjálmsson með Valskonur út tímabilið en þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í kvöld.
Hallgrímur er yfirþjálfari yngri flokka hjá Val og verið að þjálfa 3. flokk karla, en hefur nú ákveðið að taka slaginn með Matthíasi eftir að Kristján Guðmundsson steig ti hliðar síðustu mánaðamót.
Þetta er í annað sinn sem hann kemur inn í teymið en hann var aðstoðarmaður Péturs Péturssonar um tíma þegar hann þjálfaði meistaraflokkinn.
„Það er frábært að Halli ætli að taka slaginn með Matta og stelpunum. Þessi ákvörðun Kristjáns kom óvænt upp og við erum afar þakklát Halla fyrir að stíga inn í þetta og hjálpa liðinu í síðustu leikjum sumarsins,“ segir Styrmir Þór Bragason varaformaður knattspyrnudeildar Vals.
Hallgrímur er sjálfur spenntur að koma aftur inn í teymið.
„Þegar félagið leitar til manns er erfitt að skorast undan. Mér þykir mjög vænt um Val og kvennaliðið og tel að ég geti hjálpað Matta og stelpunum í að enda þetta á jákvæðum nótum. Valsliðið er miklu betra en mörg úrslit sumarsins gefa til kynna og það verður spennandi að takast á við bæði leiki í evrópukeppninni og síðan lokaleiki deildarinnar, sagði Hallgrímur á heimasíðu félagsins.
Valur er í 5. sæti Bestu deildarinnar með 18 stig og titillinn úr augsýn, en liðið undirbýr sig nú af krafti fyrir forkeppni Meistaradeildarinnar.
Þar mætir liðið Braga í undanúrslitum í 2. umferð og mun sigurvegarinn mæta annað hvort Brann eða Inter í úrslitum um sæti í 3. umferð.
Athugasemdir