Liverpool hefur náð samkomulagi við enska miðvörðinn Marc Guehi um kaup og kjör en þetta segir Fabrizio Romano á X í dag.
Paul Joyce, einn áreiðanlegasti blaðamaðurinn í fréttum tengdum Liverpool, sagði frá því fyrr í dag að viðræður Liverpool og Crystal Palace um Guehi væru hafnar.
Talið er að félögin muni ná samkomulagi um kaupverð á næstu dögum en kaupverðið mun nema um 30-35 milljónum punda.
Fabrizio Romano bætir því við að Liverpool sé þegar búið að ná samkomulagi við leikmanninn um kaup og kjör.
Þessi 25 ára gamli fyrirliði Palace hefur verið mjög skýr við Lundúnafélagið að hann ætli sér ekki að framlengja og mun því Palace þurfa að selja hann fyrir gluggalok í stað þess að missa hann frítt á næsta ári.
Liverpool gæti bætt tveimur varnarmönnum við hópinn á næstu vikum en ítalski miðvörðurinn Giovanni Leoni, sem er á mála hjá Parma, er einnig í sigti Englandsmeistarana og er líklegast falur fyrir 30 milljónir punda.
Gianluca Di Marzio hjá Sky segir mjög líklegt að félögin nái samkomulagi um kaupverð á næstu dögum.
Athugasemdir