Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Gianluigi Donnarumma er til sölu í ágúst. Hann er aðeins með eitt ár eftir af samningi sínum við PSG og ákvað franska stórveldið að semja ekki aftur við þennan heimsklassa markvörð.
PSG hefur ákveðið að nota Lucas Chevalier sem aðalmarkvörð eftir að hann var keyptur úr röðum Lille á dögunum.
Donnarumma, sem er aðeins 26 ára gamall, þarf því að finna sér nýtt félag eftir fjögurra ára dvöl í París.
Skiljanlega hafa þessar fregnir vakið gífurlega mikla athygli og eru öll stærstu félög Evrópu orðuð við kaup á Donnarumma, sem hefur verið einn af allra bestu markvörðum heims í næstum því áratug þrátt fyrir ungan aldur.
Chelsea, Manchester United og Manchester City eru áhugasöm úr ensku úrvalsdeildinni á meðan stórveldin Inter, FC Bayern, Real Madrid og Galatasaray hafa einnig verið nefnd til sögunnar sem áhugasöm.
Þá þarf ekki að taka fram að ef markvörðurinn vill þéna meiri peninga þá eru dyrnar til Sádi-Arabíu einnig galopnar.
Donnarumma er mjög metnaðarfullur leikmaður og líklegt að hann kjósi að verða eftir í Evrópu. Hann vill keppa á hæsta gæðastigi.
Donnarumma varð Evrópumeistari með Ítalíu fyrir fjórum árum og hefur spilað 74 A-landsleiki. Hjá PSG vann hann frönsku deildina fjórum sinnum, bikarinn tvisvar og Meistaradeildina einu sinni.
Donnarumma er falur fyrir 30 milljónir evra í sumar.
11.08.2025 16:23
Donnarumma skilinn eftir utan hóps
Athugasemdir